Dýrasjúkdómar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 15:38:42 (4518)

2001-02-13 15:38:42# 126. lþ. 68.3 fundur 291. mál: #A dýrasjúkdómar# (sjúkdómaskrá o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú snýr þetta kannski ekki að tilmælum. GATT-samningur var gerður. WTO-samningar eru að fara í gang. Hv. þm. tilheyrir flokki sem ég ætla ekkert að sakast hér við, sem stóð auðvitað að því hér og var í ríkisstjórn á þeim tíma sem GATT-samningarnir voru gerðir. Þeir voru gerðir á þessum grundvelli sem ég hef verið að lýsa. Ég get tekið undir með hv. þm. að auðvitað fannst mér auglýsingin til fyrirmyndar og hefði viljað sjá málið standa þannig. En það kemur í ljós að auglýsingin stendur ekki samkvæmt GATT-samningnum eða lögunum. Menn hafa samið um aðra hluti og það er hin vísindalega niðurstaða. Nú mega Íslendingar í samfélagi þjóðanna ekki hafna vísindalegum niðurstöðum. Við höfum sótt mál okkar í fiskimjölinu á grundvelli vísindalegra niðurstaðna. Við teljum okkur í málefninu um sauðfjárriðu hafa staðið okkur betur en allar aðrar þjóðir og ég er klár á því að þar höfum við verið að gera mjög rétta hluti. Við verðum að gæta okkar á því að við erum þarna í samstarfi við 140 þjóðir á grundvelli samnings sem gerður var. Við þurfum núna að fylgjast með því sem er að gerast í veröldinni. Kannski er hún á allt annarri leið. Ég trúi því hún sé það á mörgum sviðum en hún var fyrir sjö, átta árum. Ég finn það a.m.k. hér innan lands. En aðalatriðið er að vita hvort við eigum nýjan og öruggari fótstall samkvæmt samningnum og getum þess vegna þrengt lögin.