Dýrasjúkdómar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 15:40:40 (4519)

2001-02-13 15:40:40# 126. lþ. 68.3 fundur 291. mál: #A dýrasjúkdómar# (sjúkdómaskrá o.fl.) frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[15:40]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit að hjörtu okkar hæstv. landbrh. slá að mörgu leyti í takt í þessu efni. Við höfum ævinlega verið mjög samstiga varðandi þetta mál. En það eru, eins og hæstv. ráðherrann tiltók hér, 140 lönd í GATT og mörg þeirra hafa séð tilefni til að þrengja gríðarlega reglur og banna jafnvel alveg innflutning vegna kúariðunnar og þá einkum og sér í lagi vegna þess að þær vísindalegu niðurstöður sem við tökum auðvitað tillit til, ef þær liggja fyrir, eru í þessu tilfelli ekki fyrirliggjandi. Það er vandinn við þennan vandræðasjúkdóm. Við höfum ekki nægilega traustan vísindalegan grunn til að standa á. Ég verð að segja að mér finnst a.m.k. sanngirnismál að á þeim grundvelli getum við sett sérstakar reglur sem gera mögulegt að stoppa innflutning þegar það mikill vafi eins og nú er leikur á hinum vísindalega grunni.