Dýrasjúkdómar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 15:42:20 (4520)

2001-02-13 15:42:20# 126. lþ. 68.3 fundur 291. mál: #A dýrasjúkdómar# (sjúkdómaskrá o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[15:42]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málið er ekki það að mörg lönd hafi verið að banna. Hins vegar er leið í þessum samningum sem er þess eðlis að menn geta tekið sér bann stuttan tíma til að fara nýjar leiðir og þá á vísindalegum grundvelli. Mér er sagt að margar þjóðir horfi öfundaraugum til þess þrönga nálarauga sem Íslendingar hafa náð í samningum. Þess vegna hafi þær treyst sér til þess að banna og meta það og ætla að leggja það til gagnvart skjólstæðingum sínum og löndum sínum að íslenska leiðin verði farin. Við sem höfum þrengsta nálaraugað eigum því í sjálfu sér enga aðra leið í samningnum en hinar þjóðirnar margar eiga, íslensku leiðina sem er sérleið og viðurkennd. Hinar þjóðirnar eru allar með innflutning heimilan þar til hann verður bannaður. Við erum með hann bannaðan þar til hann verður leyfður. Við höfum sem betur fer ákveðið að við flytjum ekki inn í heilum og hálfum skrokkum heldur í vöðvum af því vísindin hafa sagt að það sé minni áhætta og sumir vísindamennirnir segja að það sé engin áhætta. Ég ætla ekki að taka svo djúpt í árinni úr þessum stól.

Ég er sama sinnis og hv. þm. Ég vil að landið og neytandinn njóti vafans og við eigum að fylgjast með umræðunni. Við eigum að leita okkur að nýrri stöðu til þess að geta farið enn varlegar. En ég geri það jafnan að fagna þeirri samstöðu sem er nú bæði meðal neytenda og bænda og ég vil segja stjórnmálamanna, að fara þarna að sem mestri varúð. Auðvitað ætla ég ekkert að gleyma kaupmönnunum sem mér finnst að hafi sýnt mikla ábyrgð og innflytjendunum við þessar aðstæður. Málið vinnst auðvitað hér á þinginu í vetur.