Dýrasjúkdómar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 15:44:39 (4521)

2001-02-13 15:44:39# 126. lþ. 68.3 fundur 291. mál: #A dýrasjúkdómar# (sjúkdómaskrá o.fl.) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta litla frv. um ákveðnar lagfæringar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim hafa af ósköp skiljanlegum ástæðum gefið tilefni til að ræða aðeins þá atburði sem mest hafa verið á dagskrá í sambandi við sjúkdómavarnir að þessu leyti hér á landi að undanförnu og mætti ýmislegt um það segja.

[15:45]

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst það í raun mjög merkilegt, nánast alveg dæmalaust að það skuli ekki liggja fyrir alveg óyggjandi og skýrt hvað Ísland getur gert og hvað ekki á grundvelli þeirra alþjóðasamninga sem við erum búnir að vera aðilar að um árabil og að það skuli þurfa að standa þannig á einmitt nú um stundir að lögspekingar séu að skoða það. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þeir hlutir hafa ekki verið skýrari en raun ber vitni?

Ég verð að segja að ég tel að landbn. sjálf hljóti að fara rækilega ofan í saumana á þessu máli fyrir sitt leyti og á sjálfstæðum óháðum forsendum vegna þess, með fullri virðingu fyrir framkvæmdarvaldinu, að því er málið ákaflega skylt. Ég held að það sé bæði þarft og gott og hollt að landbn. beiti sér fyrir vandaðri yfirferð á þessum málum. Með því er ég ekkert að gera lítið úr góðum vilja framkvæmdarvaldsins. En það hefur með þessi mál að gera og það er að leggja mat á eigin verk í raun og veru með lögfræðilegum úttektum og álitsgerðum sem má auðvitað setja spurningarmerki við, þ.e. hvort það eigi að vera þannig að landbrn. ræður eiginlega lögfræðing utan úr bæ til þess að skoða sjálft sig. Þannig hef ég nú skilið að þetta sé, að Eiríkur Tómasson sé meira og minna í verkum fyrir landbrn. að skoða landbrn. og hvernig það hefur staðið að málum í samskiptum sínum við yfirdýralæknisembættið o.s.frv. og á hvaða stoð reglugerðir byggja eða byggja ekki, hvað okkur er heimilt samkvæmt GATT-samningunum og hvað ekki.

Herra forseti. Ég held því að það sé mikil ástæða til þess að fara mjög rækilega yfir framkvæmdina í þessum efnum. Mér virðist því miður að við höfum verið dálítið andvaralaus í þessum efnum og það er alveg skiljanlegt. Við höfum talið okkur vera nokkuð vel varin og nokkuð örugg og menn hafa gengið út frá því að það væri svo að hér væru reglurnar mjög strangar og sú var tíðin að um það var ekki deilt. En kannski höfum við verið of værukær í ljósi þess sem nú er að koma í ljós. Kannski hafa menn ekki alltaf staðið á ýtrasta rétti sínum til þess að fara þarna með gát og láta heilbrigði íslenskra búfjárstofna og öryggi neytenda sitja algjörlega í fyrirrúmi.

Ég var aldrei í neinum minnsta vafa, herra forseti, um að samkvæmt GATT-samningunum væri okkur heimilt að stöðva innflutning á hráu kjöti ef einhver minnsti grunur léki á að í því gæti verið fólgin sjúkdómahætta. Það var aldrei minnsti efi um það í mínum huga varðandi aðild okkar að GATT-samningunum á þeim forsendum sem við gerðumst aðilar að Úrúgvæ-niðurstöðu í GATT-ferlinu. Og ég veit ekki betur --- það eru þá nýjar upplýsingar --- en að þeir menn sem um það véluðu mest fyrir Íslands hönd á þeim tíma, eins og fyrrverandi yfirdýralæknir og fleiri menn, hafi verið sömu skoðunar. Það eru mér alveg nýjar fréttir ef menn hafa einhvern tímann fyrr en þá nú á seinni árum gefið sér einhverjar aðrar niðurstöður. Það kann að vera að nýir menn, nýr ráðuneytisstjóri í landbrn. eða einhverjir aðrir slíkir, hafi tilhneigingu til að lesa öðruvísi úr þessum pappírum. En mér er ekki kunnugt um að það hafi verið gert af þeim sem þá stóðu mest í þessu fyrir Íslands hönd, sem voru sennilega að öðrum mönnum ólöstuðum þeir Brynjólfur Sandholt, fyrrverandi yfirdýralæknir, og Guðmundur Sigþórsson, skrifstofustjóri landbrn.

Ég kom talsvert að þessu máli á sínum tíma. Þetta Úrúgvæ-ferli tók mörg ár. Það hófst 1986 ef ég man rétt. Það er kennt við upprunastað sinn í Úrúgvæ þegar viðræðulotan fór af stað. Margar árangurslausar tilraunir voru gerðar á árunum 1989--1991 til að ljúka þessu ferli. En þær tókust ekki. Það er sem sagt ekki fyrr en í tíð ríkisstjórnar Alþfl. og Sjálfstfl. sem þetta er til lykta leitt og kemur hér fyrir þingið. Þá urðu miklar umræður um þetta og þær hafa að hluta til verið rifjaðar upp, m.a. í greinaskrifum hv. þm. Egils Jónssonar. Og ef ég man rétt þá var sömuleiðis þar á ferðinni staðfesting á því að það væri enginn vafi í hugum manna sem að þessu komu á þeim tíma að í höndum Íslands væru algjörlega ótvírætt heimildir til þess að stöðva eða banna innflutning á hrámeti ef ástæða væri til þess eða rök fyrir því á grundvelli heilbrigðis og hollustu. Þess vegna snúa nú lögin eins og frægt er. Það var deiluefni hér, sem hefði í raun ekki átt að vera deiluefni um efnisatriði, hvort menn hefðu þetta þannig að innflutningurinn sé bannaður á grundvelli almennrar reglu en síðan heimilt að veita undanþágu frá því banni, eða að þessu er snúið við og sagt að innflutningurinn sé heimill á grundvelli almennrar reglu, en það sé hægt að banna hann ef ástæða er talin til. Um þetta var nú þrætan að miklu leyti og var ekki mjög frjó satt best að segja.

En aðalatriði málsins er auðvitað hvort ekki sé ótvírætt að Ísland hafi á grundvelli þeirrar sérstöðu sem alltaf var talað fyrir, alveg frá byrjun þátttöku Íslendinga í viðræðunum, þ.e. vegna okkar sérstöku stöðu og landfræðilegrar einangrunar og þess að landið væri laust við mjög marga alvarlega smitsjúkdóma sem væru að skjóta upp kollinum í nálægum löndum þá yrðum við að geta samið um miklu strangari takmarkanir í þessum efnum, eins og t.d. algjört bann við innflutningi lifandi dýra, nema þá að undangenginni einangrun o.s.frv., og möguleikum á því að banna innflutning á hrámeti, nema þá þegar hægt væri að leyfa hann að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Á þetta var strax af Íslands hálfu lögð mikil áhersla og ástæðan var m.a. sú að í raun hafði sú vernd sem íslensk framleiðsla bjó við verið í skjóli þeirra innflutningsbanna sem í gildi höfðu verið og þar af leiðandi höfðu ekki verið fyrir hendi stýritæki eða jöfnunartæki af því tagi sem þekkt var orðið víða erlendis, að innflutningsverndin var falin í tollmúrum o.s.frv.

GATT-samningarnir leiddu til breytinga að þessu leyti eins og mönnum er kunnugt. Innflutningsverndin var umreiknuð yfir í stuðningsígildi eða tollvernd og sá takmarkaði innflutningur sem við erum samningsbundin að leyfa á lægri tollum er svo á grundvelli þessara breytinga og heimildin síðan til að auka tollverndina til að stuðnings innlendri framleiðslu.

Þetta þekkja menn, herra forseti, og óþarft að þylja þetta frekar yfir þeim sem hér eru viðstaddir. Ég er bara að rifja þetta upp vegna þess að allt hékk þetta nú saman með tilteknum hætti. Og það er alveg ljóst að þessi mikla sérstaða Íslands borið saman við eiginlega velflest önnur lönd sem þátt tóku í þessum viðræðum og einhverju máli skipta í viðskiptum með matvæli og búvörur, var þessi. Undantekningin á hinum endanum er kannski Nýja-Sjáland sem vissulega er landfræðilega einangrað og er í sömu stöðu og við hvað það varðar að verja sinn landbúnað fyrir hættu af smitsjúkdómum, og að nokkru leyti Ástralía, en þar var því þó ólíku saman að jafna að Nýsjálendingar og að nokkru leyti Ástralir eru ein stærsta útflutningsþjóð í heimi á þessu sviði og hagsmunir þeirra voru því gríðarlegir í því að ná niður tollmúrum og opna markaði fyrir sína framleiðslu. Þeir voru þar af leiðandi að mörgu leyti að velja meiri hagsmuni fyrir minni þegar þeir urðu að semja sig inn í tiltekinn ramma í þessum efnum. Staða Íslands var gjörólík. Það sem skipti máli frá upphafi af Íslands hálfu var að geta varðveitt þessa sérstöðu sína, að taka ekki óþarfa áhættu varðandi hollustu og heilbrigði landbúnaðarframleiðslu okkar og verja okkur fyrir hættunni á smitsjúkdómum.

Ég held að það sé líka alveg augljóst mál, og hæstv. ráðherra kom reyndar aðeins inn á það hér, að tímabundnum aðgerðum getum við beitt. Það er alveg á hreinu að þessir samningar rúma tímabundnar og bráðaaðgerðir ef ástæða þykir til. Það er því enginn vafi t.d. á því í mínum huga að við hefðum í október eða nóvembermánuði sl. haft alla stöðu til þess að ákveða tímabundið innflutningsbann, bara algert innflutningsbann á hráu kjöti til landsins. Okkur hefði verið stætt á því að viðhalda því í nokkra mánuði enda um mjög óverulega hagsmuni nokkurs aðila að ræða í þeim efnum, þ.e. innflytjendur á þennan markað eiga þar náttúrlega svo hverfandi hagsmuni. Það væri þá fyrst og fremst kannski spurning um pólitískt eða táknrænt mál sem hefði getað leitt til þess að einhverjir hefðu getað orðið óánægðir með slíka aðgerð af okkar hálfu.

Ég veit heldur ekki betur en að í þessum samningi eins og velflestum sambærilegum alþjóðasamningum séu beinlínis beint tekin fram svona neyðarákvæði, þ.e. einhvers konar ,,force majeure``-ákvæði. Og jafnvel þó þau séu ekki inni í samningunum þá held ég að það sé viðurkennd regla í þjóðarétti að ríki hafa leyfi til að bera fyrir sig slíkan rétt ef mjög ríkar ástæður teljast vera fyrir því. Ef sem sagt almannaheill, öryggi borgara eða landsins er talið ógnað af einhverju ástandi þá fylgir einfaldlega fullveldisréttinum í þjóðarétti möguleiki á að grípa til slíkra aðgerða. Ég held að það sé alveg sama hvernig á það er litið að ef við hefðum talið, sem ég held að sé full ástæða til að gera, verulega alvarlegar aðstæður uppi í landbúnaði okkar og matvælaöryggi og fæðuöryggi landsmanna þá gætum við gert slíka hluti.

Í ljós hefur komið, eins og hefur verið að gerast síðustu mánuðina, að menn hafa vanmetið stórfellt útbreiðslu t.d. kúariðunnar og nú reikna Danir með því að þeir eigi eftir að horfa framan í 100--200 tilfelli á ári núna næstu árin. Það er gjörbreytt staða hjá þeim frá því fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þetta reikna þeir einfaldlega tölfræðilega út frá því magni innflutnings á lífdýrum og þeim viðskiptum sem þeir hafa staðið í með þessar vörur. Norðmenn bíða með öndina í hálsinum og spyrja Dani hverjar líkurnar séu á því, þó ekki væri nema tölfræðilega, að kúariða komi upp þar vegna þess tiltekna innflutnings sem þar hefur verið. Og Danir svara auðvitað að tölfræðilega séu verulegar líkur á því að þeir fái fyrstu tilfellin núna innan tiltölulega skamms tíma. Staðan er að vísu betri þar en sums staðar annars staðar því þeir reikna með að geta rakið alla þá gripi sem komið hafa inn í landið.

Við erum sem betur fer ekki í þessari hættu hvað varðar viðskipti með lifandi dýr. En það er engu að síður ástæða til að fara varlega. Og það sem gerðist með fóðurvörurnar, mögulegan innflutning á nautshúðum og annað í þeim dúr, er líka mjög óheppilegt. Ég veit ekki hvort þessi innflutningur á nautshúðum er seinni tíma vandamál tilkomið vegna þess að menn hafa lagst svo mikið undir húðir upp á síðkastið. Það liggja allir undir feldi. Nú er ekki orðið hægt að hugsa neina hugsun nema skríða fyrst undir feld, þá væntanlega nautshúð. Gárungarnir segja meira að segja að verðið á nautshúðum sé þegar farið að hækka af þessum ástæðum. Framsfl. getur nú ekki hugsað ráð sitt með neinum hætti, ekki hvort menn eiga að fara í varaformannsframboð eða að gera eitthvað annað, öðruvísi en að skríða fyrst undir feld. Það er vonandi að það komi íslenskum landbúnaði til góða en valdi ekki auknum innflutningi og aukinni hættu á smitsjúkdómum.

Herra forseti. Af því þessi umræða var hafin þá vildi ég aðeins koma með þessar hugleiðingar mínar inn í málið og slæ botninn í þetta með því að endurtaka það sem ég sagði fyrr. Ég sé alla ástæðu til þess að landbn. Alþingis, sem ég veit ekki til þess að hafi haft neitt yfirmáta mikið að gera fram að þessu --- það eru að vísu að koma til hennar núna nokkur frv. frá hæstv. ráðherra --- en það er drjúgur hluti eftir af vetrinum og ef mönnum vinnst vel væri að mínu mati alveg hægt að setja í gang myndarlega yfirferð á þessum málum af hálfu landbn. Það væri full þörf á að gera það og að landbn. og þingið allt fylgdist mjög vel með framvindu þessara mála og það yrði gerð grein fyrir því hér inn í þingið í formi einhvers konar skilagreinar frá landbn. Svoleiðis er unnið að þessum málum einmitt þessa mánuðina á hinum þjóðþingunum. Það vill svo til að ég kannaði það sérstaklega núna fyrir fáeinum dögum síðan hvernig staða mála væri bæði í Danmörku og Noregi. Þar eru þær þingnefndir, sérstaklega í Danmörku, sem með þessi mál fara með viðamikið prógramm í gangi sem lýtur bæði að störfum í þinginu og lýtur líka að samskiptum út á við við samtök og hagsmunaaðila. Danir eru með þetta allt saman í einni mjög öflugri nefnd sem heitir fødevare- og madsikkerhedsnævn, þ.e. nefnd sem fer með allt sem lýtur að fóðurvörum og matvælahollustu og heilnæmi. Það er að mörgu leyti mjög góð skipan mála. Þar er þetta allt sameinað á einum stað í einni mjög öflugri nefnd og hún tekur þessi mál alvarlega og stendur sjálf fyrir mjög viðamiklu starfi um þessar mundir að gefnu tilefni.

Ég held að við mættum gjarnan taka okkur það til fyrirmyndar í einhverjum mæli og líta svo á að landbn. og eftir atvikum þá í samstarfi við aðrar þingnefndir eins og heilbrn., tæki þessi mál virkilega fyrir á dagskrá á næstunni.