Dýrasjúkdómar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 15:59:49 (4522)

2001-02-13 15:59:49# 126. lþ. 68.3 fundur 291. mál: #A dýrasjúkdómar# (sjúkdómaskrá o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. að ég hygg að það séu alveg full rök í hverju tilfelli til þess að fresta eða segja hina frægu setningu ,,obbobbobb, bíðiði nú við``. Ég held að það sé nú alveg ljóst að við höfum fullt leyfi til þess og grípa þannig til tímabundinna aðgerða og vara við. Ég saknaði þess kannski í þessu máli að það skyldi ekki gert. En hins vegar er eins og hv. þm., sem er nú mjög reyndur, veit að bann er dálítið viðamikil aðgerð því að pólitíkin er líka dálítið hörð á veraldarvísu og getur snúist upp í andhverfu sína. Þar verða menn því að meta mjög stöðu sína. Svo verðum við auðvitað að treysta á þessa litlu samhentu þjóð. Það er eins og skáldið sagði:

  • Svo henti lítið atvik einu sinni,
  • sem okkur, þessa gömlu fjandmenn, sætti:
  • Nú erum við allir samherjar um að við viljum fara varlega. Allir Íslendingar hygg ég vilja fara með fullri gætni þannig að það er fagnaðarefni.

    [16:00]

    Hv. þm. þarf svo sem ekkert að gera lítið úr því þó ég fengi færan lögmann til að fara yfir þessi mál til að vita um stöðu mína. Ég get tekið undir með honum að það er mjög mikilvægt að landbn. vinni vinnu sína og hún fer áreiðanlega yfir þessi mál.

    Auðvitað höfum við tekist á um margt í þessu í gegnum tíðina. Ég man eftir, hvort sem það var nú í tíð hv. þm. sem landbrh. eða eftir að hann var hættur, að við Egill Jónsson, sem þá var formaður, sátum yfir því að setja í gat í lögunum þar sem orðið var heimilt að flytja rotmassa til Íslands frá Bretlandi. Okkur leist satt að segja ekkert á þá stöðu. Við höfum því alltaf verið að upplifa eitthvað nýtt í þessum málum. Hv. þm. veit að án nokkurrar umræðu fluttu menn hér inn ný nautgripakyn, Limousin og Aberdeen Angus. Nú eru menn bara á allt annarri ferð og allt annarrar skoðunar í svona málum. Veröldin er á mikilli ferð, hv. þm. og sumt af því, vonandi allt, verður okkur til hagsbóta.