Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 16:42:19 (4530)

2001-02-13 16:42:19# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[16:42]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. ráðherra. Þetta var skemmtileg ræða hjá hv. þm. og hún rifjaði upp þann tíma í lífi mínu þegar mér datt í hug hvort ég ætti að verða prestur og las Biblíuna af innlifun, en þar segir einmitt um ræðuna: Ræða þín skal vera já, já og nei, nei. Allt sem er umfram það er af hinu illa. --- Mér fannst þetta koma glöggt fram í ræðu hv. þm. Stundum er nú gott að fara undir feld og hugsa ráð sitt, en stundum er Loðgrímur góður og þetta var góð ræða hjá hv. þm. og ég tek undir margt sem hann sagði. Ég fagna stuðningi hans við málið og tek undir margt sem hann segir um hvernig hann vilji fara að þessu, rækilega umbúið, túlka óvissu náttúrunni í hag. Þetta hef ég allt saman sagt í málinu og þess vegna er framlagning þessa frv. auðvitað mikil alvara, hv. þm. Og sannleikurinn er sá að hv. þm. hefur verið landbrh. meðan fiskeldi hefur verið í sjónum. Þá var enginn að hugsa um svona lög eða reglur. Nú hefur heimurinn farið enn einn hring og við stöndum á nýjum tímapunkti. Fiskeldi hefur verið í kjördæmi hv. þm., bæði í Eyjafirði og ekkert síður í Kelduhverfinu. Við þurfum auðvitað að huga að því að setja nýjar reglur þar sem það hefur verið. Minn vilji er sá og ég hef rakið það áður að menn verða að vanda sig í þessu verki. Það er enginn tími til að liggja lengi undir feldinum, ég er kominn undan honum og við erum á fullu að vinna í málinu. Við hér á Alþingi Íslendinga treystum bæði landbn. og hv. þm. vel til þess að verða okkur til aðstoðar til að við getum fylgt þessu eftir í þeim anda sem við báðir styðjum, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.