Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 16:44:42 (4531)

2001-02-13 16:44:42# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það helsta biblíulega í texta mínum var þetta með að vegir laxins væru órannsakanlegir eins og fleiri fyrirbæra, og átti ég þá auðvitað við almættið.

En varðandi laxeldi hér fyrr á tímum og í minni tíð sem landbrh., þá voru gerðar og höfðu á árunum þar á undan verið gerðar einhverjar fremur óburðugar tilraunir til sjókvíaeldis á laxi af innlendum stofni, þær gengu ekki vel, m.a. vegna kynþroskavandamála í þeim stofni.

[16:45]

Það var einnig í minni tíð að ákvörðun var tekin um að norska laxinum yrði ekki sleppt í sjó og að þeir sem hann fengu að halda yrðu að gera það í landstöðvum. Til þess samkomulags, reyndar heiðursmannasamkomulags, hefur oft verið vitnað í umræðum um þess mál að undanförnu. Það var vegna þess að menn vildu ekki taka áhættu á erfðamengun og vildu fara með mikilli gát hvað varðaði meðferð þessa erlenda stofns í sjónum.

Varðandi meginspurningu mína þá vona ég að ráðherra noti seinni svarrétt til að svara henni úr því að hann gerði það ekki í fyrri umræðunni. Það er um lagaskilin. Hvernig sér hæstv. ráðherra lagaskilin fyrir sér gagnvart þeim umsóknum og leyfum sem eru í farvatninu? Mun ekkert sjókvíaeldi á erlendum laxi fara af stað í stórum stíl við Ísland fyrr en það hefur sætt þeirri málsmeðferð sem lögin mæla fyrir um eða munu einhverjar umsóknir, einhver leyfi sleppa við það? Þetta er punctum saliens, einföld spurning: Hvernig sér ráðherra þetta fyrir sér? Hyggst hann bíða með að gefa út frekari leyfi? Getur hann tryggt að engin starfsemi hefjist fyrr en hún hafi uppfyllt öll skilyrði væntanlegra laga?