Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 16:48:32 (4533)

2001-02-13 16:48:32# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[16:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Enn þykja mér svörin svolítið loðin. Það er ekki kveðið á um lagaskilin í frv. Um þau er ekkert sagt og mér finnast svör hæstv. ráðherra vera fremur opin í þeim efnum. Það er eins og látið sé að því liggja að endanleg rekstrarleyfi verði gefin út í vetur þrátt fyrir að frv. liggi hér fyrir og sé til umfjöllunar á þinginu. Hæstv. ráðherra hefur uppi um það góðar væntingar að tekið verði eitthvert mið af því sem hér er í textanum. En það er auðvitað ekki það sama og segja að nú verði engin frekari leyfi veitt, beðið eftir því að lögin taki gildi og síðan fari hver einasta ákvörðun eftir það fram í samræmi við texta laganna og þar með talið þennan 3. tölul. 3. gr. Þá væri auðvitað fyrir þeim hlutum séð.

Þannig fór, herra forseti, að ég fékk frekar loðin svör og lítil en hins vegar spurningu í staðinn. Spurning hæstv. ráðherra var um hver væri afstaða mín til lax af erlendum stofni, til þess að setja hann í sjókvíaeldi í stórum stíl. Ég tel að það sé mjög stór og afdrifarík ákvörðun fyrir það fyrsta og að menn hljóti náttúrlega þar af leiðandi að vanda allan umbúnað þeirrar ákvörðunartöku í samræmi við það. Ég tel að (Landbrh.: Er hann Kelduhverfinu?) hvorki sá lagalegi grunnur né vistfræðilegi og líffræðilegi sé til staðar eins og málin standa í dag. Ég tel ótímabært að taka um það ákvörðun. Ég hef sjálfur umtalsverðar efasemdir um það. (Landbrh.: Er hann í Kelduhverfinu?) Sá lax? Hann er væntanlega í Ísnó eða í Rifósi. (Landbrh.: Er hann alinn nálægt þingmanninum?) Hæstv. landbrh. veit væntanlega best sjálfur hvar lax af norskum stofni er alinn í landinu. Ætli það sé ekki aðallega á þremur stöðum sem hann hefur verið í eldi núna síðustu árin.

Erfðafræðilega er þetta erlendur stofn, framandi gestur í lífríki okkar. Um það er engin spurning þannig að það hlýtur að teljast umtalsverð hætta á erfðamengun í íslenska laxastofninum ef þarna yrði blöndun. Það þarf í raun ekki að segja meira um það til að átta sig á hversu stór og afdrifarík slík ákvörðun er.