Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 17:22:03 (4542)

2001-02-13 17:22:03# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[17:22]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Bara til að því sé til haga haldið fyrir þingtíðindin þá gengu hugmyndir mínar, sem ég reifaði á þessum Hríseyjarfundi, út á að mögulega mætti skapa svigrúm til að byggðatengja einhvern lágmarksgrunnrétt í veiðum með fyrningu, t.d. eins og 1% veiðiheimilda í fimm ár. Ég lagði út af því dæmi. Lengra var ekki gengið í þessum vangaveltum þannig að tíu prósenta dæmi eða tíu ára dæmi hv. þm. er að því leyti ekki á réttum rökum reist því það er ekki í samræmi það sem ég sagði þarna. Síðan getum við rætt þau mál betur.

Varðandi þessa ákvörðun um norska eldislaxinn þá er það rétt að þegar Stofnfiskur var settur á fót var honum ætlað það hlutverk að kynbæta eldislax, reyndar bæði af innlendum og erlendum stofni. Norski laxinn var staðreynd og búinn að vera í landinu nokkurt árabil. Vonir manna við laxeldi á Íslandi voru þá fremst bundnar við landstöðvar. Það var ekki verið að taka neina nýja viðbótaráhættu með því að kynbæta eldisstofna með því að ala í þeim landstöðvum sem búið var að byggja. Menn kannast væntanlega við þau stórfelldu áform sem verið höfðu uppi. Byggðar voru allmargar stöðvar sem ætlað var að ala lax á landi svo næmi 500--1.000 tonnum á ári eða jafnvel meira. Síðan fór þetta allt eins og það fór en það er önnur saga.

Menn verða fyrst að gera það upp við sig hvort þeir meina eitthvað með tali um að þeir vilji framkvæma mat á umhverfisáhrifum, að menn vilji viðhafa varúðarreglur í sambandi við villta náttúru og lífríki landsins. Út frá því verða menn síðan að taka á einstökum málum sem koma upp. Ef menn ætla alltaf að nota þá aðferð sem mér heyrist hér talað fyrir, að vera í orði kveðnu með þau sjónarmið uppi að það beri að viðhafa varúðarreglu og það beri að ástunda umhverfisvernd en víkja því svo til hliðar um leið og það rekst á einhverja hagsmuni í einhverjum einstökum tilvikum, með þeim rökum að það sé á Austfjörðum í dag eða Vesturlandi á morgun eða það vanti vinnu hér eða það komi tekjur þar. Til hvers er þetta þá? Verða menn ekki að reyna að hafa einhvern grundvöll undir sinni stefnu í þessum efnum sem menn eiga síðan að vera menn til að standa við?