Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 17:24:17 (4543)

2001-02-13 17:24:17# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[17:24]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög gott að þessu sé vel til skila haldið sem hv. þm. talaði um, að hann vilji taka 1% af aflaheimildum í fimm ár og byggðatengja, óafturkræft 5%. Það er ekki lítið sem hinir ýmsu útgerðarmenn og útgerðarfélög um landið eiga að bera og þeir sem hafa fest fjármuni sína í þeim fyrirtækjum á hlutabréfamarkaði. Þetta er auðvitað mjög fróðlegt.

Í annan stað vil ég segja að við sem búum í landinu hljótum að taka áhættu hverju sinni. Við búum hér með náttúrunni og verðum að lifa með henni. Eins og sakir standa hafa menn bundið miklar vonir við það, m.a. fyrir austan land, að laxeldi geti breikkað atvinnugrundvöllinn og komið í staðinn fyrir minnkandi sjósókn, treyst byggðirnar. Ég er einn af þeim sem hafa gert sér vonir um það. Þess vegna er ég líka einn þeirra sem hafa verið þess hvetjandi að menn gæfu slíkt leyfi.

Nú má auðvitað lengi tala um að halda eigi áfram að rannsaka og að halda eigi áfram að rannsaka. Ég geri mér vel grein fyrir því. En það sem ég hef líka vakið athygli á er að það eru oft sömu mennirnir sem ekki vilja leyfa laxeldið, sem ekki vilja virkja, sem ekki vilja álver, sem ekki vilja frjálsa verslun, sem ekki vilja annað en ríkisútvarp og ríkissjónvarp og vilja takmarka fréttaflutning eins og þessi hv. þm. vildi á sínum tíma. Það er þetta þrönga sjónarhorn, þetta afturhaldssjónarhorn sem skýtur allt of oft upp kollinum í ræðuflutningi hv. 3. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar. Það væri fróðlegt að reyna að ímynda sér hvernig væri umhorfs á Íslandi ef hans hugmyndir hefðu alltaf náð fram að ganga.