Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 17:39:07 (4545)

2001-02-13 17:39:07# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[17:39]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef alltaf sagt að mikilvægt sé að hafa góð gleraugu og gagnrýnin augu. Það er mikilvægt að hafa nöldrið sitt, eins og maðurinn sagði forðum, að menn reyni að rýna í textann og gera betur. Ég er þakklátur fyrir það.

Ég vil segja við hv. þm. að ég hef sem landbrh. leitað leiða og sátta í þessu máli. Ég hef átt marga fundi með þeim sem vilja fara í stórhuga fiskeldi. Ég hef líka átt marga fundi með mönnunum í hinni frjálsu náttúru, eigendum laxveiðijarða o.s.frv. Þannig er alveg klárt að vilji minn, sem ég legg hér fram, er skýr. Þeir gera sér grein fyrir því. Þeir gera sér grein fyrir því að þessa leið beri að varða af miklu öryggi hvað sem líður þeim veiku og gildandi lögum. Við stöndum í rauninni ekki á neinum grunni. Það hefur ekkert verið unnið í þessum málum árum saman. Nú er þetta uppi aftur og þá verðum við að vanda okkur. Það getur vel verið að landbn. verði fljót að afgreiða þetta mál. Hún getur unnið hratt ef hún vill þannig að kannski gerist það á nokkrum vikum. Þetta er viljinn og auðvitað verða leyfin bundin þessu. Ég held að menn séu sáttir við það.

Hvað varðar stærð þá held ég að það hvarfli ekki að neinum, miðað við reynslu annarra þjóða, að fara í 8 þús. tonna eldi, einn, tveir og þrír. Hvort það verða 3 eða 4 þús. skal ég ekkert segja um. Við ætlum að reyna að læra af mistökum annarra og fara aðrar leiðir.

Hvað eignarhaldið varðar þá er það ljóst. Ég útskýrði hér áðan hvað ég ætti við og hef ekki tíma til að svara því aftur. Það er ekki bann við að menn selji fyrirtækin en samt sem áður á þarna að vera öruggt aðhald fyrir þá sem eru að gutla þetta í sjónum.