Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 17:43:02 (4547)

2001-02-13 17:43:02# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[17:43]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég nefndi það áðan að ég hef leitað sátta. Ég er samt ekki að segja að þær hafi endanlega náðst. Það verður sjálfsagt aldrei í stórpólitísku máli þar sem menn hafa sterkar tilfinningar og skoðanir. Ég er ekki að boða að sátt hafi náðst. Ég held að menn virði hins vegar alla þá varúð sem ég hef viljað sýna og kemur fram í þessu frv. og ekki síður vilja þingsins í þessu máli þegar það verður afgreitt. Ég bind auðvitað vonir við að menn geti markað leið sátta í því.

Hv. þm. leiðir sjálfsagt rök að gjaldtöku og auðlindagjaldi ef ég skildi hann rétt. Það er heimild í þessu frv. til slíks. Aðalatriðið og spurningin er auðvitað hvernig þetta heppnast hér. Eigum við möguleika á að taka þátt á heimsmarkaði? Við erum matvælaþjóð, höfum reynslu í fiskveiðum og erum frábær matvælaþjóð, einnig í landbúnaðinum. Spurningin er: Hvernig tekst til? Aðalatriðið er að fá í þetta raunverulega atvinnurekendur sem vilja og geta.

Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel að þessi atvinnustarfsemi geti ekki verið hér í mjög mörgum fjörðum, hvorki veðráttunnar vegna né hins sem við verðum að standa vörð um, þ.e. hinnar villtu náttúru. Hún á eins og ég hef sagt að njóta vafans í málinu. Þess vegna verður umgjörðin, eftirlitið og reglurnar sem settar eru um uppbygginguna að vera skýrar. Það verður að fylgja þessu vel eftir.