Lax- og silungsveiði

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 17:45:02 (4548)

2001-02-13 17:45:02# 126. lþ. 68.4 fundur 389. mál: #A lax- og silungsveiði# (rekstrarleyfi, gjaldtaka, fiskeldisnefnd o.fl) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[17:45]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra kallaði þetta auðlindagjald sem ég sagði áðan að þyrfti að koma til til þess að hægt væri að velja með sanngjörnum hætti þar sem jafnræði gilti þá sem fengju að hljóta hnossið, þ.e. ef það er mikils virði að fá að nýta sér aðstöðu til þess að ala upp fisk í firði eða einhvers staðar í kringum landið. Menn mega svo sem kalla þetta auðlindagjald. Ég tel hins vegar að það skipti miklu meira máli en hvað kemur út úr slíku gjaldi, þ.e. hversu hátt það verður skiptir miklu minna máli heldur en það að sanngjarnar leikreglur gildi og að stjórnvöld þurfi ekki að handvelja þá sem hljóta hnossið eða molana sem falla af borðum ríkisins.

Ég vil leggja áherslu á að ef það er svo að hægt sé að hafa fiskeldi í tiltölulega mjög fáum fjörðum á Íslandi, þá verða menn að ganga í það að skilgreina það og velja og skoða og síðan verði mönnum gefinn kostur á því að keppa um það á eðlilegum markaði hverjir fái að reka fiskeldisstöðvar á þeim stöðum sem verða fyrir valinu.