Eldi nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 17:48:22 (4549)

2001-02-13 17:48:22# 126. lþ. 68.5 fundur 361. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[17:48]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Markmið þess frv. sem ég mæli fyrir er eins og fram kemur í 1. gr. þess að stuðla að ábyrgu eldi nytjastofna og tryggja verndun villtra nytjastofna. Til þess þarf í fyrsta lagi að tryggja gæði framleiðslunnar og í öðru lagi að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og í þriðja lagi að tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna.

Frumvarp þetta er lagt fram í tengslum við frumvarp til laga um breytingar á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum. Ein mikilvæg breyting í frv. þessu er að lagt er til að mynduð verði fiskeldisnefnd er verði til ráðgjafar og til stefnumótunar í fiskeldi, bæði á landi og í sjó. Ákvæði laga um lax- og silungsveiði varðandi fiskeldi taka einungis til ferskvatnsfiska.

Við stjórnun á auðlindum er mikilvægt að samræma ólíka hagsmuni, t.d. hagsmuni af fiskveiðum, af eldi á vatnafiski og af eldi nytjastofna sjávar. Til að tryggja samræmda stefnumótun og framkvæmd reglna varðandi fiskeldi er mikilvægt að þeir ráðherrar sem að þessum málum koma, þ.e. landbrh. og sjútvrh., hafi aðgang að sambærilegum upplýsingum og njóti sambærilegrar ráðgjafar. Ekki er í gildi löggjöf um eldi nytjastofna sjávar sem sambærileg er þeirri sem gildir um eldi vatnafiska og er brýnt að úr því verði bætt. Fiskeldisnefndinni er m.a. ætlað að vera sjávarútvegsráðherra til ráðgjafar við þá vinnu sem fram undan er við framangreindar úrbætur. Ákvæðum þessa frumvarps er ætlað að brúa bilið þar til allsherjarendurskoðun hefur farið fram á þessu sviði.

Landbrh. flytur, eins og ég gat um áðan, frv. um breyting á lögum um lax- og silungsveiði. Helstu nýmæli þess frv. er að leitast er við að setja fram skýrari reglur um starfsemi fiskeldis og styrkja og treysta þau ákvæði laganna sem ætlað er að sporna gegn aukinni hættu á fisksjúkdómum og óæskilegri blöndu fiskstofna og öðrum vistfræðilegum vandamálum.

Við samningu þessara frv., þ.e. frv. landbrh. um breyting á lögum um lax- og silungsveiði og frv. þess sem ég mæli hér fyrir um eldi nytjastofna sjávar, hafa landbrn. og sjútvrn. haft náið samráð til að tryggja samræmi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn.