Eldi nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 17:50:46 (4550)

2001-02-13 17:50:46# 126. lþ. 68.5 fundur 361. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[17:50]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég fæ möguleika á því að ræða þetta mál í sjútvn. og ætla ekki að fara yfir einstakar greinar núna. Við vorum að ræða annað mál á undan sem er af nákvæmlega sama tagi. En mig langar til þess að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort ekki hafi komið til umræðu í tengslum við umfjöllun um þetta frv. sem hér liggur fyrir að sú heildarendurskoðun sem hann nefndi áðan gengi þá út á að skoða í alvöru að allt fiskeldi yrði undir einu ráðuneyti, a.m.k. það sem fram fer í sjónum. Mér finnst það dálítið undarlegt varðandi fiskeldi sem færi fram, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, í fjörðum sem liggja hlið við hlið, að annars vegar væri hæstv. sjútvrh. með yfirumsjónina en hæstv. landbrh. í næsta firði jafnvel þó að sama fyrirtækið ræki báðar stöðvarnar. Er þetta ekki tvíverknaður og er ekki ástæða til þess, ef þessi endurskoðun á að fara fram, að menn skoði það í alvöru að koma þessu undir einn hatt?

Ég geri ráð fyrir því að hæstv. landbrh. sé fastheldinn á það sem hann hefur komið krumlunum yfir. En það mun þá reyna á hæstv. sjútvrh., þ.e. hvort honum muni ekki takast að ná til sín þeim verkefnum sem þarna eru. Ég tel þetta skipta máli vegna þess heildareftirlits sem þarf að fara fram. Ég geri ráð fyrir því að hvort sem er verði reynt að samræma það og samnýta starfskrafta hvað þetta allt saman varðar og þá aðila sem um þetta fjalla. En mér finnst einhvern veginn einmitt núna þegar menn eru farnir að ræða um þetta eldi í stórum stíl og binda við það miklar vonir, að þá hefði verið ástæða til þess að skoða vandlega hvernig framtíðin eigi að vera þannig að það verði þá eitthvert samræmi. Það skiptir örugglega máli líka út frá því hvaða stöðvar er hægt að staðsetja. Það geta orðið árekstrar á milli þeirra sem vilja reka fiskeldi sem heyrir undir sjútvrh. og annarra sem vilja reka fiskeldi sem muni þá heyra undir landbrn.

Að öðru leyti vil ég fagna því að hér er þó lagt af stað og tel mikla ástæðu til þess að menn ýti undir og reyni með öllum ráðum að sjá til þess að eldi sjávardýra hefjist hér þannig að við sitjum ekki þar langt á eftir. Ég tel að það geti komið að því fyrr en seinna að þetta hafi veruleg áhrif á fiskveiðar okkar og markaði okkar erlendis því að menn allt í kringum okkur eru með mjög miklar fyrirætlanir um fiskeldi og jafnvel eldi á þorski á næstu árum og það getur haft veruleg áhrif á rekstur sjávarútvegsins hér. Ég tel að full ástæða sé til þess að ganga hart fram í því að öll skilyrði séu til staðar og aðilar eigi þá möguleika á því að komast í þennan rekstur og að það verði ekki tafið vegna þess að stjórnvöld hafa ekki staðið sig í þeim undirbúningi sem þarf að verða.

Þessu vildi ég koma til skila og fyrst og fremst spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki yrði farið yfir þetta í heild í þeirri endurskoðun sem hann nefndi áðan að væri fram undan. Það er áreiðanlegt að það getur skipt verulegu máli upp á framtíðina og maður talar nú ekki um ef menn fara að takast á um aðstöðuna í kringum landið til þess að ala fisk.