Eldi nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 17:55:31 (4551)

2001-02-13 17:55:31# 126. lþ. 68.5 fundur 361. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[17:55]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins örfá orð af minni hálfu. Ég get í aðalatriðum tekið undir ræðu síðasta ræðumanns. Ég er í þeim hópi sem hefur bundið miklar vonir við það að í eldi sjávarfiska kynnu að vera fólgnir miklir möguleikar fyrir okkar Íslendinga og að þar gætum við orðið í fararbroddi í stað þess að verða aftaníossar annarra, ef svo má að orði komast, sem líklegast er nú orðin staðreynd hvað laxeldi varðar. Við erum þar langt á eftir þeim þjóðum sem mest hafa sótt fram í þeim efnum og njótum auðvitað þá að einhverju leyti góðs af því brautryðjendastarfi sem þar hefur verið unnið. En við erum líka þeim skrefum aftar á ferðinni í markaðsaðgangi og öðru slíku sem til þarf.

Möguleikar okkar hins vegar til eldis sjávarfiska ættu að geta verið góðir og a.m.k. í einu tilviki, þar sem lúðueldi á í hlut hafa Íslendingar þegar náð miklum árangri akkúrat þar sem flöskuhálsinn í því eldi hefur verið, þ.e. í seiðaframleiðslunni.

Ég ætla ekki að eyða tíma hér, nenni því ekki einu sinni, í að ræða um landamæri milli landbrn. og sjútvrn. og skipulagið á þessu. Það er hálfvandræðalegt allt og við þekkjum það. En það er eins og það er og kannski er best að vera ekki að eyða kröftunum í landamæradeilur af því tagi heldur stuðla fremur að því að lögin séu eftir föngum samræmd og það sé ekki meiri skörun eða tvíverknaður í gangi en ástæða er til. Út af fyrir sig má svo sem nota þessa líffræðilegu skilgreiningu sem byggt hefur verið á.

Það sem ég ætla að segja um þetta frv. er, herra forseti, og ég neyðist því miður til að segja það að þegar ég fór að skoða það betur varð ég þeim mun óánægðari með þessa smíð og ég tel að eiginlega sé ekkert annað að gera en að endursemja meira og minna þetta frv. Það er svo illa orðað, herra forseti. Það er alveg ómögulegt að afgreiða þetta svona. Það verður einhvern veginn að reyna að tryggja að frumvarpstextar séu á sæmilegu mannamáli, með boðlega framsetningu, og að hugsunin sem þar á að vera til staðar sé skiljanleg. Ég verð bara að segja í fullri hreinskilni við hæstv. ráðherra sem ber þetta fram að þetta er ekki nógu gott.

Hvað þýðir t.d. þessi fyrsta setning á mannamáli: ,,Markmið þessara laga er að stuðla að ábyrgu eldi nytjastofna ...``? Hvað er ábyrgt eldi nytjastofna? Að hverju snýr ábyrgðin? ,,Stuðla að`` hefur aldrei þótt sérstaklega góður lagatexti. Þetta eru svona viljayfirlýsingar. Það er mikið af þeim þarna, ,,stuðla að``, ,,leitast við``. Þarna hefðu menn a.m.k. í markmiðsgrein átt að reyna að setja fram megininntak þessara laga skýrar og afdráttarlausar auk þess sem ég tel að það eigi að koma fram þegar ný löggjöf er sett að þessu leyti að málið heyri undir sjútvrh. En það þarf eiginlega að finna það út með því að lesa sig aftur í 3. gr. Bæði landbrh. og sjútvrh. koma fyrir í lagatextanum því að í 4. gr. er fjallað um fiskeldisnefnd sem landbrh. skipar þannig að ef menn eru ekki þeim mun betur að sér í þessum efnum og hafa misst af því að heyra hæstv. sjútvrh. mæla fyrir málinu þá gætu þeir lent í vandræðum með að átta sig á undir hvern þetta mál heyrir. Það er ágætisvenja að í löggjöf sé tekið fram í 1. gr. undir hvern málið heyrir.

Í öðru lagi þetta með ábyrgt eðli nytjastofna og þetta að ,,stuðla að`` o.s.frv. Þarna hefði ég viljað sjá menn umorða hlutina. Það er þó betra að segja að markmið þessara laga sé að tryggja eftir því sem kostur er, eða eitthvað í þeim dúr. Og ábyrgt eldi nytjastofna á væntanlega að merkja að staðið sé að eldi nytjastofna með ábyrgum hætti. ,,... tryggja verndun villtra nytjastofna.`` Gott og vel. Það er reyndar svo, herra forseti, að hér eru ákveðin vandræði á ferðinni í hugtakanotkun og það er heldur klúðurslegt að sjá setningu eins og neðst í 2. gr.:

,,Ferskvatnsfiskar teljast ekki til nytjastofna`` --- að vísu er svo bætt við: ,,samkvæmt þessum lögum.``

En það er hálfvandræðalegt að þurfa að orða þetta svona. Var engin leið að finna þarna betri afmörkun og tala þá bara um sjávarfiska?

Eitt atriði enn, herra forseti, sem ég kann ekki við stendur í þriðju línu í 1. gr:

,,Skal í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum`` --- til hvers þessi upptalning? --- ,,og lífríki þeirra ...``

Bíðum nú við, lífríki villtra nytjastofna, lifa þeir í sjálfstæðu lífríki? Er ekki bara verið að tala hér um að við ætlum að reyna að koma í veg fyrir umhverfisslys, að við ætlum að koma í veg fyrir skaða í vistkerfinu, í lífríkinu. Ég átta mig ekki á því að hægt sé að tala um sjálfstætt eða sérstakt lífríki nytjastofna sjávar eins og það sé eitthvað einangrað frá öðru í lífríkinu.

Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þetta nöldur, herra forseti, sem einhver kann að kalla svo. En þegar ég var búinn að lesa þetta nokkrum sinnum og reyna að átta mig á bæði merkingu og orðanotkun þarna var mér nóg boðið og ég ákvað að gera athugasemd. Ég tel að þarna hefðu menn þurft að vanda betur frumvarpssmíð. Að sjálfsögðu er þingnefnd ætlað að fara yfir þessa hluti og vonandi betrumbætir hún þetta og er til þess bær og til þess fær. Ég efa það ekki. En það er dálítið til umræðu þessa dagana að lagasetning sé ekki nægilega vönduð og oft óskýr og þá skiptir auðvitað máli að vandað sé til alls ferlisins allt frá því að frumvarpsdrög eru samin og þangað til umfjöllun um þau lýkur og þau verða að lögum. Ég tel að við þingmenn eigum að taka skeytasendingar utan að alvarlega um að stundum sé misbrestur á því að hér sé nægjanlega vel að verki staðið og eitt af því sem á að vanda er málfar þó að það hafi kannski ekki endilega mikil réttarfarsleg áhrif eða breyti í miklum mæli inntaki laganna eða merkingu. Málfar og framsetning eru hlutir sem á líka að hyggja að.