Eldi nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 18:02:20 (4552)

2001-02-13 18:02:20# 126. lþ. 68.5 fundur 361. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[18:02]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka ágætar undirtektir hv. þingmanna. Varðandi stöðu fiskeldisins í stjórnkerfinu er það út af fyrir sig rétt sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er ekki um að ræða óumdeilda stöðu ef svo má að orði komast. Um það hefur mikil umræða spunnist á síðustu tveimur áratugum. Ég held hins vegar ekki að sú staða hafi beinlínis staðið greininni fyrir þrifum. Að vissu leyti eru þar eðlileg mörk látin ráða, annars vegar vatnafiskar og hins vegar nytjastofnar sjávar og því ráða þar auðvitað ferðinni tengsl landbúnaðarins og landeigenda við laxveiðiárnar og fiskeldi sem hófst í kringum þær með klaki á seiðum til sleppinga í ár og vötn sem síðan varð að sjókvíaeldi og hafbeit. Ég held varðandi þær umræður og deilur sem verið hafa um hættu á erfðamengun í laxveiðiám að það hefði jafnvel getað orðið enn erfiðra og viðkvæmra mál ef eldi laxfiska hefði verið skipt á milli tveggja ráðuneyta eins og er í Noregi, þ.e. þar sem sleppingar í ár og vötn væru hjá landbrn. eða umhvrn. en eldi í sjó væri hjá sjútvrn. Ég held að það þurfi ekki að standa okkur neitt fyrir þrifum og sameiginleg aðkoma ráðherranna tveggja í fiskeldisnefndinni er einmitt hugsuð til að koma í veg fyrir að vandamál eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson minntist á í sinni ræðu verði eldinu til trafala þannig að ekki sé hægt að leysa úr slíkum vandamálum fljótt og vel. Ég hef því ekki áhyggjur af þessu.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór fögrum orðum um möguleika til eldis sjávarlífvera. Þeir eru vissulega fyrir hendi hjá okkur þó að ég vilji vara við ofurbjartsýni í því. Við verðum að fara varlega í þessum efnum og undirbúa vel þá hluti sem við gerum þar. Við höfum forskot í eldi vissra tegunda, bæði lúðu og sæeyra. Við þurfum að fara varlega með það og nýta okkur það vel til að byggja á í framtíðinni. En ofurbjartsýni í einhverja átt getur valdið okkur erfiðleikum.

Varðandi nöldrið sem hv. þm. nefndi svo sjálfur, þá veit ég að það er vel meint og því er ekki illa tekið og sjálfsagt er að hv. sjútvn. fari yfir það. Svona til þess að útskýra a.m.k. eitt af því, þ.e. ábyrgt eldi nytjastofna, þá er hér um svipaða eða nánast sömu orðanotkun og farið er að nota í sjávarútvegi þegar talað er um ábyrgðar fiskveiðar. Það má segja að ábyrgar fiskveiðar í alþjóðlegri umræðu séu að vissu leyti að taka við eða séu ákveðið framhald af sjálfbærum veiðum. Ráðstefnan sem við Íslendingar munum standa að ásamt FAO næsta haust er einmitt undir kjörorði ábyrgra fiskveiða. Í því ljósi held ég að þetta eigi að skiljast fullkomlega.

Varðandi önnur atriði vonast ég til þess að þau verði skoðuð í nefnd og telji menn að bæta megi úr er auðvitað sjálfsagt að svo verði gert.