Vegagerðin

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 13:49:02 (4558)

2001-02-14 13:49:02# 126. lþ. 70.1 fundur 363. mál: #A Vegagerðin# fsp. (til munnl.) frá samgrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Mér finnst þetta mjög áhugaverð fyrirspurn og áhugavert að hún skuli hafa komið fram. Mér kemur ekki á óvart að starfsmönnum Vegagerðar hafi fækkað frá því fyrir um áratug en það er e.t.v. umhugsunarefni að síðan hefur sá starfsmannafjöldi eða stöðugildafjöldi haldist nokkurn veginn sem festist þá í sessi.

Það sem vekur mig til umhugsunar er 2. spurning, þ.e. um klæðningu eða aðra slitlagsgerð. Mig langar til að fá upplýsingar um það í umræðunni hve margir það eru hérlendis sem leggja klæðningu og hve margir sem leggja malbik með tilliti til þess hversu hagstætt það er að bjóða út.

Að öðru leyti kom það mér líka á óvart að heyra hjá fyrirspyrjanda að búin séu til einingaverð í kostnaðaráætlunum. Þegar ég var bæjarfulltrúi var útgangspunkturinn sá að leggja mat á hvað það mundi kosta að vinna verkið sjálfur og leita síðan útboða.