Vegagerðin

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 13:52:12 (4560)

2001-02-14 13:52:12# 126. lþ. 70.1 fundur 363. mál: #A Vegagerðin# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[13:52]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Í fyrirspurn hv. þm. kom fram sú spurning hve margir yfirmenn Vegagerðarinnar væru verkfræðingar, tæknifræðingar og viðskiptafræðingar. Því er til að svara að í yfirstjórn sem skipar fimm menn eru þrír verkfræðingar, einn lögfræðingur og einn náttúrufræðingur.

Samsetning forstöðumanna deilda og umdæma er þannig að þar eru 12 verkfræðingar, tveir tæknifræðingar, tveir viðskiptafræðingar, einn lögfræðingur og einn tölvunarfræðingur eða samtals 18 starfsmenn.

Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að meiri hækkanir hafa orðið á einstökum liðum en sem nemur þessari hækkun á vísitölu en þarna er að sjálfsögðu um að ræða útboð sem byggja á ákveðnum forsendum og ákveðnum verðviðmiðunum. Þess vegna er þetta bundið og erfitt við að eiga. Samt sem áður hefur verið komið til móts við verktaka vegna þessarar sérstöku hækkunar að sjálfsögðu hvað varðar þungaskattinn sem er stjórnvaldsákvörðun og er í fyllsta máta eðlilegt að taka tillit til og að hinu leytinu olíuverðsbreytingar.

Hv. þm. Gísli S. Einarsson spurði um steypuna. Það er að sjálfsögðu vilji til þess að nota steypu en því miður hefur það ekki reynst vera eins hagkvæmt og vonir manna stóðu til. (SJS: Það kemur steypa frá Akranesi.) Hún er íslensk, steypan, en kannski breytist tæknin og möguleikarnir skapast á að nýta steypuna meira en gert er.

Ekki er óeðlilegt að stöðugildi eða starfsmannafjöldi Vegagerðarinnar hafi haldist í þessu horfi en hafi ekki fækkað meira vegna þess að á vegum Vegagerðarinnar hefur þjónustan aukist svo mjög mikið eins og hv. þm. þekkja og fjárveitingar til Vegagerðarinnar hafa aukist.