Sjúkraflug

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 13:58:34 (4562)

2001-02-14 13:58:34# 126. lþ. 70.2 fundur 405. mál: #A sjúkraflug# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda hafa orðið mjög miklar breytingar á þjónustu á flugvöllum landsins vegna þess að sums staðar er ekki lengur um að ræða áætlunarflug og umferð hefur dregist saman á tilteknum flugvöllum og starfsemin þar af leiðandi hvað varðar þjónustu á hinum sömu völlum, en á öðrum flugvöllum landsins hefur umferðin hins vegar aukist og þjónustan verið aukin.

Aðalatriði þessa máls er hins vegar það að fyrir stuttu var gerður samningur, hinn fyrsti, um sjúkraflug, reyndar áætlunarflug, sem heyrir ekki undir mitt ráðuneyti. Það var einn útboðspakki og það er í fyrsta sinni sem sjúkraflutningsmálunum er komið í mjög fast og ég vil vona farsælt far og traust. Hins vegar er á það að líta að þjónusta á flugvöllunum er að sjálfsögðu eitt af þeim lykilatriðum sem þarf að vera í lagi. Þess vegna er í framhaldi af því að verklagsreglur voru settar, eins og hv. þm. vitnaði til, um þjónustu á þessum völlum, verið að endurskipuleggja starfsemina á flugvöllunum með tilliti til vaktstöðu og annarra hluta. Vandinn er hins vegar sá að hin almenna umferð er mjög lítil langvíðast.

Sjúkraflutningar eru annars vegar með venjulegum flugvélum, sem þurfa að nýta sér flugvellina, og þarf þá að sjálfsögðu að vera tryggt að þeir séu opnir og hins vegar er sjúkraflutningum sinnt með þyrlum sem kalla ekki á sömu aðstöðu á flugvöllunum eins og hv. þm. þekkja. Í því ljósi, vegna hinna miklu breytinga á flugvöllunum, í framhaldi af þessum settu verklagsreglum um þjónustu á flugvöllunum og vegna þessa samnings um sjúkraflutningana er núna í undirbúningi að gera verulegar breytingar, endurskipulagningu á flugvöllunum um allt land með það í huga að reyna að tryggja og treysta þessa mikilvægu þjónustu. Við erum þar m.a. að huga að samstarfi við heimamenn þannig að sú þjónusta og fjármunirnir nýtist sem best. Í burðarliðnum er m.a. samningur um þjónustuver á Snæfellsnesi þar sem þjónustuver Vegagerðar, Flugmálastjórnar og Siglingastofnunar mun sjá um rekstur flugvallanna á Snæfellsnesi. Annar samningur er í burðarliðnum í Neskaupstað við Fjarðarbyggð þar sem gert er ráð fyrir að heimamenn sinni þessari þjónustu. Það er vilji minn að ganga til samninga við heimamenn um að þeir sinni þjónustunni þannig að flugvellirnir megi nýtast sem allra best.

En ég vil undirstrika að með útboði á sjúkrafluginu og að sjálfsögðu með þyrluþjónustunni er sjúkraflutningum á Íslandi mjög vel fyrir komið í dag.