Sjúkraflug

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:14:31 (4572)

2001-02-14 14:14:31# 126. lþ. 70.2 fundur 405. mál: #A sjúkraflug# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:14]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hér hafa orðið allmerkilegar umræður finnst mér. Merkilegust þóttu mér viðbrögð hv. þm. Samfylkingarinnar við því þegar vakin var athygli á mikilvægri þýðingu Reykjavíkurflugvallar í þessu sambandi. Aðeins einn hv. þm. Samfylkingarinnar sem hingað kom upp og hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar tekið undir mikilvægi uppbyggingar Reykjavíkurflugvallar, sem er hv. 15. þm. Reykv., ég ætla enn að nefna hana því nafni, hv. 15. þm. Reykv. sem hefur verið mjög ötull stuðningsmaður Reykjavíkurflugvallar árum saman og vil ég undirstrika það en aðrir sýndu allt aðra hlið.

En hvað um það. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson tók þetta mál upp og telur að einhver hlekkur hafi gleymst og eins var um fleiri þingmenn í útboði vegna sjúkraflugsins. Ekki var gert ráð fyrir því að í útboði væri verið að bjóða út einhverja þjónustu á flugvöllunum. Það er grundvallarmisskilningur. Flugmálastjórn sér um reksturinn á flugvöllunum og sér um að þjónustan sé í lagi. Ég veit ekki til þess að þjónustan sé í því ólagi sem hv. fyrirspyrjandi lét að liggja. Fróðlegt væri að heyra hvað starfsmenn Flugmálastjórnar segja um þessar umsagnir hv. þm. Ég hef ekki orðið þess var að þeir standi sig ekki í stykkinu.