Tjón af völdum óskilagripa

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:19:10 (4575)

2001-02-14 14:19:10# 126. lþ. 70.3 fundur 387. mál: #A tjón af völdum óskilagripa# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:19]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja eina litla fyrirspurn fyrir hæstv. félmrh. Hún varðar nokkuð sérstakar aðstæður sem virðast geta komið upp og gera sannanlega, því ég hef a.m.k. eitt slíkt dæmi undir höndum, þar sem óskilagripir, í þessu tilviki og væntanlega flestum tilvikum, hross, ómerkt og ómörkuð, sem valda tjóni á bifreiðum t.d. eða mögulega einhverju öðru tjóni, og ekki reynist unnt að sanna eignarhald á gripnum. Þá virðist svo sem í raun og veru komi upp réttaróvissa eða gat þannig að enginn beri eigendaábyrgð á viðkomandi grip. Þetta leiðir svo aftur til þess að sá sem fyrir tjóninu verður situr uppi með það óbætt og hvorki sveitarfélög né tryggingafélög sem leitað hefur verið til í slíkum tilvikum vilja neitt við málin kannast þar sem engum eiganda er til að dreifa til að bera þá a.m.k. að sínu leyti eftir því sem sannaðist, ábyrgð á tjóninu.

Ég hef því lagt þá spurningu fyrir hæstv. félmrh., því mér sýnist mikilvægt að fá úr því skorið hver réttarstaðan sé í slíkum tilvikum, hvort ekki sé eðlilegt að sveitarfélögin beri þá eigendaábyrgð á óskilagripum innan sinna lögsögumarka. Það virðist tæplega öðrum til að dreifa og má til rökstuðnings færa það að slíka óskilagripi taka sveitarfélög og bjóða upp og taka til sín andvirðið þegar svo ber undir. Alla vega sýnist mér ómögulegt að uppi sé réttaróvissa í þessum efnum og það getur tæpast verið sanngjarnt að það geti verið tilviljanakennt með þessum hætti hvernig tryggingum manna og öðru uppgjöri tjóns er háttað, þ.e. að í því tilviki sem um merktan grip sé að ræða, markaðan, eða grip sem tekst þótt ómerktur sé að sanna eignarhald á þá sé til staðar skýr eigendaábyrgð en í öðrum tilvikum ekki og það sé þá bara óheppni þeirra sem fyrir því verða að lenda í slíkum tilvikum og verða fyrir tjóni.

Ég þarf ekki, held ég, að hafa frekari orð um þetta. Spurningin skýrir sig væntanlega nægjanlega sjálf og ég bíð eftir svörum hæstv. ráðherra.