Undanþágur frá fasteignaskatti

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:35:07 (4582)

2001-02-14 14:35:07# 126. lþ. 70.4 fundur 409. mál: #A undanþágur frá fasteignaskatti# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Í skýrslu nefndar um tekjustofna sveitarfélaga sem skilaði áliti sl. haust er vikið að sérstökum ákvæðum í nokkrum lögum, sérstaklega varðandi tekjustofna sveitarfélaga en einnig sérlögum, sem lúta að undanþágum frá greiðslu á fasteignasköttum. Í skýrslunni segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Nefndin leggur til að undanþágum verði fækkað og að þegar verði hafin vinna við að endurskoða ákvæði þar að lútandi í lögum um tekjustofna sveitarfélaga og öðrum lögum. Slíkt mundi bæði einfalda álagninguna og auka einnig skatttekjur sveitarfélaga.``

Hér er hreyft við ansi stóru máli sem ég held að sé í sjálfu sér margslungið og nauðsynlegt að hyggja mjög vel að því. Við getum velt fyrir okkur þessu ákvæði um undanþágurnar, hvort þær eigi yfir höfuð nokkurn rétt á sér en við sjáum líka að á því eru aðrar hliðar sem þarf að fara mjög vel í gegnum. Þess vegna er mikilvægt að það sé gert með þeim hætti sem þarna er lagt til.

Undanþágurnar geta auðvitað haft ýmislegt í för með sér. Þær skekkja á vissan hátt samkeppnisstöðu stofnana gagnvart atvinnugreinum. Á síðasta þingi var samþykkt hér á Alþingi að falla frá því að t.d. Þróunarsjóður sjávarútvegsins hefði sérstaka undanþágu frá því að greiða fasteignaskatta af húsum sínum. Fyrir eitt tiltekið sveitarfélag þýddi það að mig minnir eitthvað á aðra milljón kr., enda var það svo að þetta undanþáguákvæði skekkti samkeppnisstöðuna þar á bæ. Sama sést ef við skoðum áhrifin af þessum undanþágum varðandi álagningu fasteignaskattanna. Sums staðar kemur þetta sér vel fyrir sveitarfélög og annars staðar ekki.

Ef við skoðum textann í núgildandi lögum þá kemur fram að undanþegin fasteignaskatti séu ýmsar sjúkrastofnanir, kirkjuskólar, heimavistir, barnaheimili, íþróttahús, skipbrotsmannaskýli, sæluhús, bókasöfn og önnur safnahús. Síðan þurfa ýmsar aðrar stofnanir, menningarstofnanir t.d., að greiða heilmikla fasteignaskatta. Þannig að getum við sagt að þetta skekki á vissan hátt stöðuna milli einstakra sveitarfélaga.

Á árinu 1992--1993 fékk ég svarað fyrirspurn um þessi mál. Þar kom m.a. fram að Alþingi greiðir t.d. 5 millj. í fasteignaskatta til höfuðborgarinnar og Ríkisútvarpið 21 millj. kr., á meðan t.d. aðrar menningarstofnanir og skólar greiða ekki fasteignaskatta. Þessar stofnanir eru almennt talað fremur staðsettar úti á landi. Ef ég veit rétt þá er Háskólabíó í eigu Háskóla Íslands og Háskólabíó greiddi á þessu ári 2,5 millj. kr. í fasteignaskatta en skólar í eigu ríkisins úti á landi greiða hann ekki.

Þess vegna hef ég leyft mér, virðulegi forseti, á þskj. 664 að leggja fram eftirfarandi fsp. til hæstv. félmrh.:

1. Hvernig verður unnið að þeim fyrirheitum sem fram koma í skýrslu nefndar um tekjustofna sveitarfélaga að fækka undanþágum frá fasteignaskatti?

2. Hvenær má vænta þess að þeirri vinnu ljúki og tillögur liggi fyrir?

3. Liggja fyrir upplýsingar um hve háum fjárhæðum þessar undanþágur geti numið?