Hvalveiðar

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:52:26 (4590)

2001-02-14 14:52:26# 126. lþ. 70.5 fundur 397. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:52]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Um miðjan janúar sl. ákváðu Norðmenn að leyfa útflutning hvalaafurða, þ.e. hrefnukjöts og spiks, enda veiða þeir bara hrefnu. Þessi ákvörðun Norðmanna varð formanni sjútvn. Alþingis, Einari K. Guðfinnssyni, tilefni til að vekja enn á ný vonir um að hvalveiðar á Íslandi væru alveg að hefjast. En af því tilefni var haft eftir honum í Ríkisútvarpinu að ekkert væri nú því til fyrirstöðu að hefja veiðarnar.

Herra forseti. Fyrirspurn mín er með tilvitnun í þau ummæli eða þessa skoðun, en hún er svohljóðandi:

1. Er sjávarútvegsráðherra þeirrar skoðunar að ekkert sé því til fyrirstöðu að Íslendingar hefji hvalveiðar nú þegar Norðmenn hafa ákveðið að hefja útflutning hvalaafurða?

2. Ef svo er hvenær sér ráðherra þá fyrir sér að veiðar hefjist og á hvaða tegundum?

Herra forseti. Auðvitað leikur okkur forvitni á að vita hvort formaður hæstv. sjútvn. var að tala fyrir hönd stjórnvalda. Eða var einungis rétt eina ferðina verið að slá ryki í augu fólksins í landinu og telja því trú um að hvalveiðar væru bara spurning um einfalda ákvörðun? Það hefur verið plagsiður manna að telja þjóðinni trú um að hér væri um þess háttar ákvörðun að ræða að nánast óskiljanlegt væri að hún skyldi ekki hafa tekin í gær eða fyrir löngu.

Herra forseti. Skyldi ekki málið vera þannig vaxið að um býsna flókna ákvörðun er að ræða og þess vegna full ástæða til að tala um hana sem slíka? Og muna eftir því þegar verið er að ræða hvalveiðar að hvorki erum við í sömu stöðu og Noregur með að vera í Alþjóðahvalveiðiráðinu, né heldur mótmæltum við banninu á sínum tíma. Ef við hefðum gert það væri kannski sú skoðun sem hæstv. formaður sjútvn. lætur frá sér fara frekar á sínum stað en mér sýnist hún vera miðað við núverandi aðstæður. Full ástæða er til þess, herra forseti, að þingið ræði þessi mál af raunsæi. Að þingið ræði þessi mál í ljósi þess hver staða Íslands er og hverjir möguleikar okkar eru á því að hefja hvalveiðar. Upphrópunum linni eins og þeim að nú sé ekkert því til fyrirstöðu að hefja veiðar, að nú sé síðustu hindruninni rutt úr vegi af því að Norðmenn hafi ákveðið útflutning.

Hitt er aftur annað mál, herra forseti, hvort einhverjir ætli að flytja inn þó svo Norðmenn ákveði að flytja megi út.