Hvalveiðar

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:10:06 (4602)

2001-02-14 15:10:06# 126. lþ. 70.5 fundur 397. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:10]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er ágætt að ekki er verið að berja á þingmönnum. En ég man hins vegar ekki eftir því að ég hafi nokkru sinni svarað spurningu á hv. Alþingi sem hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur verið ánægður með. Það kemur mér svo sem ekkert á óvart þótt honum finnist svör mín vera rýr í dag.

Enn á ný er verið að fara sama hringinn, segir hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, og ekkert að marka, segir hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. En ég get alveg fullvissað þau um að það er full alvara í þeirri vinnu sem fer nú fram á vegum ráðuneytisins í að kynna afstöðu okkar og undirbúa það að hvalveiðar geti hafist. Því tek ég afar vel hvatningu hæstv. forseta um að hefja hvalveiðar og ég held að það sjónarmið sem hv. þm. Gunnar Birgisson kom fram með um að við séum í samkeppni við hvalina sé hárrétt sjónarmið.

Út af fyrir sig fagna ég þeirri afstöðu sem kom fram hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að hún virðist gera sér grein fyrir því hvernig málið er statt varðandi hvalveiðiráðið og varðandi fyrirvarann, en vil bæta því við að það skiptir líka máli hvernig fyrirvara okkar er tekið innan Alþjóðahvalveiðiráðsins þegar og ef við göngum þar inn með fyrirvara. Í því liggur einmitt skýringin á því, hv. þm. Kristján Pálsson, að við gengum úr Alþjóðahvalveiðiráðinu til þess að geta hugsanlega freistað þess að komast þangað aftur inn með fyrirvara. Fordæmi eru fyrir því á alþjóðavettvangi að ríki hafi gengið úr samtökum og farið aftur inn með fyrirvara sem við gerum þá við ný eða eldri efnisatriði.

Til þess að þingheimur velkist ekki í nokkrum vafa um afstöðu mína í málinu þá hyggst ég ekki tileinka mér hraða snigilsins í þessu máli, hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason.