Staða sjávarbyggða

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:30:14 (4608)

2001-02-14 15:30:14# 126. lþ. 70.7 fundur 404. mál: #A staða sjávarbyggða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Byggðastofnun lagði fram skýrslu um stöðu sjávarbyggða sem kom út í desember. Mér fannst svar ráðherra varðandi þessa fyrirspurn frekar efnislítið og kannski í takt við annað sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn í sambandi við byggðamál.

En ég vil nota þetta tækifæri og nefna af því að við vorum nýlega á borgarafundi í Hrísey, hæstv. byggðamálaráðherra og þingmenn Norðurl. e. og ég kom þar svona sem óboðinn gestur úr annarri sókn ef svo má að orði komast, að fram kom hjá hv. þingmönnum Sjálfstfl., Halldóri Blöndal og Tómasi Inga Olrich, um síðasta verk síðustu stjórnar Byggðastofnunar sem var undir forsæti Egils Jónssonar, þingmanns Sjálfstfl., að Byggðastofnun hefði brotið lög með því að úthluta byggðakvótanum til fimm ára en ekki eins árs.

Ég vil spyrja hæstv. byggðamálaráðherra: Er ráðherrann sammála þessu sjónarmiði?

Og hitt atriðið: Hyggst hæstv. byggðamálaráðherra beita sér fyrir því að byggðakvóti verði aukinn til að koma til móts við minni staði eins og Hrísey?

Herra forseti. Það vantar ekki fleiri skýrslur um vanda landsbyggðarinnar, (Forseti hringir.) en það vantar aðgerðir. (Gripið fram í: Það vantar þögn.)

(Forseti (HBl): Ég hef áður tekið fram, hv. þm., að eftir að rautt ljós hefur kviknað er ekki ætlast til þess að menn taki upp ný efnisatriði í ræðum sínum. Það er naumt skammtaður tíminn og ég áminni þingmenn um að gæta háttvísi og virða þingsköp.)