Staða sjávarbyggða

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:31:59 (4609)

2001-02-14 15:31:59# 126. lþ. 70.7 fundur 404. mál: #A staða sjávarbyggða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Hér er hreyft afar brýnu máli, sérstaklega þó í seinni hluta spurningarinnar sem lögð var fram og ber að þakka það.

Ágallar kvótakerfisins eru að verða flestum ljósir og menn vita í hverju þeir felast. Kerfinu var þröngvað á í miklum flýti og asa árið 1983, svo maður líti svo langt aftur, á hinu háa Alþingi Íslendinga. Talsmenn kvótans töldu að með þessu kerfi væri búið að leysa byggðavandann á Íslandi. Og ég vísa þar með í ræður einstakra þingmanna frá þeim tíma.

Herra forseti. Kvótakerfið ætlar þvert á móti að reynast banabiti ýmissa sjávarbyggða. Þetta er dapurleg 16 ára reynsla. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda: Hver eru ráð hæstv. byggðamálaráðherra gagnvart því sem við blasir varðandi framkvæmd kvótakerfisins?

Fróðlegt væri að vita það í ljósi þess að hér hafa tveir frammámenn Framsóknar vitnað um að þeir séu á móti kerfinu eins og það er framkvæmt.