Staða sjávarbyggða

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:34:20 (4611)

2001-02-14 15:34:20# 126. lþ. 70.7 fundur 404. mál: #A staða sjávarbyggða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:34]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þegar takmörkuðum gæðum er skipt eru þau auðvitað á einhverjum stöðum. Spurningin er um hvort þeim sé réttlátlega skipt og hvort aðgangurinn að auðlindinni sé með þeim hætti að sanngjarnar og eðlilegar leikreglur séu til staðar. Þær eru það ekki í dag og um það snýst deilan. Slíkar aðstæður koma verst niður á mörgum minnstu byggðarlögunum og þeim sem eiga undir högg að sækja af öðrum ástæðum líka. Þetta eru mestallt sjávarbyggðir sem hafa ekki í önnur hús að venda. Í dag er það þannig að ekki er hægt að stofna til nýrrar útgerðar á þessum stöðum, einfaldlega vegna verðs á veiðiheimildum og þetta veit hv. þm. Tómas Ingi Olrich. Og þegar hann talar um að að taka eigi veiðiheimildirnar annars staðar frá er það út af fyrir sig rétt, það er verið að taka þær annars staðar frá. En það er líka búið að úthluta þessum veiðiheimildum nógu lengi til þeirra aðila sem ekkert hafa fyrir þær borgað.