Staða sjávarbyggða

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:35:37 (4612)

2001-02-14 15:35:37# 126. lþ. 70.7 fundur 404. mál: #A staða sjávarbyggða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það var örðugt að átta sig á hvað hæstv. byggðamálaráðherra átti við þegar hún tókst á við að svara síðari spurningunni sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon bar upp. En af svari hæstv. byggðamálaráðherra mátti ráða að vandi sjávarbyggða sé fyrst og fremst kvótakerfinu að kenna. Enn fremur að sá vandi sé ekki á herðum byggðamálaráðherra. Sá vandi er fyrst og fremst á herðum sjútvrh. og það helsta sem hæstv. ráðherra hafði til málsins að leggja var að hv. Alþingi skyldi bíða og sjá til með hvað hæstv. sjútvrh. mundi leggja fram á hinu háa Alþingi.

Virðulegi forseti. Svör af þessum toga eru vart til þess fallin að efla trú þess fólks sem nú býr í þessum byggðum í ljósi þess að algerlega nauðsynlegt er að það fái aukinn aðgang að sjávarauðlindinni.