Staða sjávarbyggða

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:38:07 (4614)

2001-02-14 15:38:07# 126. lþ. 70.7 fundur 404. mál: #A staða sjávarbyggða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Byggðir drógust saman löngu fyrir kvótakerfið og við höfum séð miklar breytingar þrátt fyrir mjög opnar heimildir og aðgang að fiskimiðum, (Gripið fram í.) þannig að við þurfum ekki að fara svo langt til þess, hv. þm.

Veikleiki lítilla byggða er fyrst og fremst einhæfni atvinnulífsins og spurningin er hvernig menn geta breikkað þennan atvinnuþátt í byggðunum eða bætt samgöngur til byggðanna, svo að fólk treysti sér til að búa þar.

Ég held, herra forseti, að þessi sífelldi söngur um að ekki sé nokkur leið að búa úti á landi vegna þess að kvótakerfið er við lýði eða þá að einhver önnur óáran ríði yfir dragi fyrst og fremst kjark úr landsbyggðarmönnum. Það er þessi ótrúlega svartsýni. Það er fullt af fiski úti á landi sem menn gætu unnið ef hlutunum væri snúið á þann veg. Við vitum að kvóti sumra byggða er margfaldur miðað við það sem hægt væri að vinna þar.