Reglur Evrópusambandsins um viðskipti með dýraafurðir

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 15:50:06 (4620)

2001-02-14 15:50:06# 126. lþ. 70.8 fundur 400. mál: #A reglur Evrópusambandsins um viðskipti með dýraafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Svar mitt við fyrstu spurningu hv. þm. er þetta:

Við endurskoðun EES-samnings um heilbrigði dýra og plantna, sem fram fór árið 1995, var ákveðið að þær undanþágur sem Ísland hafði frá samningnum skyldu teknar til endurskoðunar árið 2000. Sú endurskoðunarvinna er þegar hafin og var fyrsti fundur aðila haldinn í nóvember sl. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja áherslu á óbreyttar samningsskuldbindingar eins og þær eru nú í I. viðauka og var sú stefna kynnt á fundinum af hálfu minna manna. Ég ræddi þetta mál í ríkisstjórn og þess vegna er landbrn. þarna í hlutverki sínu. Sá sem hér stendur mun áfram standa gegn því að teknar verði upp reglur Evrópusambandsins svo þetta sé sett á skýrt mannamál. Hv. þm. lætur kannski í sumum atriðum liggja að hlutum sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum eins og að menn séu farnir að vinna eftir innri reglum Evrópusambandsins. Við gerum það ekki, við vinnum á þeim grunni sem samningurinn byggir á. Hitt er auðvitað ljóst mál að utanrrn. og utanríkisþjónustan kemur að öllum þessum málum eins og hv. þm. þekkir.

Svar við annarri spurningu: Ísland er ekki skuldbundið til að fara eftir áliti og/eða niðurstöðum vísindanefndar Evrópusambandsins við áhættuna í viðskiptum og markaðssetningu á lifandi dýrum og dýraafurðum nema hvað varðar fisk og fiskafurðir þar sem er ekki um samningsbundin atriði að ræða. Íslendingar hafa strangari reglur en flest önnur ríki að því er lýtur að innflutningi og viðskiptum með dýr og dýraafurðir sem kemur m.a. til af góðri stöðu sjúkdóma og einangrunar landsins. Þegar innflutningur á sér stað er stuðst við bestu vísindalegar upplýsingar sem tiltækar eru, t.d. í sérfræðiskýrslum og álitsgerðum alþjóðastofnana, svo sem WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, OIE, Alþjóðaheilbrigðisstofnunar dýra, CODEX, gagnagrunns eða áhættumats einstakra ríkja. Þannig er þessi vinna unnin á grundvelli samningsins.

Svar við þriðju spurningu: Samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, er innflutningur ýmissa hrárra landbúnaðarafurða bannaður. Landbrh. er hins vegar heimilt að leyfa innflutning á þar til greindum vörum að fengnum meðmælum yfirdýralæknis enda þykir sannað að ekki berist smitefni með þeim er valda dýrasjúkdómum. Meginreglan hérlendis er því bann og er innflutningur undantekning að mjög ströngum skilyrðum uppfylltum. Ég hef margsinnis rakið það hér í þessum stól og gerði það síðast í gær að vinnubrögð okkar í þessu eru auðvitað mjög vönduð. Við erum með þrengsta nálaraugað og stöndum öðruvísi að en aðrar þjóðir og nú eru sumar þjóðir að leita eftir því að fara að eins og Íslendingar.

Í spurningunni er gert ráð fyrir að innflutningsbönn nokkurra samningsaðila Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar séu fortakslaus. Svo er ekki í öllum tilfellum. Opnara innflutningsfyrirkomulag þessara ríkja hefur kallað á bráðabirgðaviðbrögð af þeirra hálfu. Þjóðir á borð við Nýja-Sjáland, sem hafa ekki minni hagsmuna að gæta í sjúkdómavörnum en Ísland, hafa nú kosið að taka upp til bráðabirgða sem meginreglu það fyrirkomulag sem ríkir hér. Athygli er vakin á því að Rússland er ekki aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni eins og kom fram í máli eða fyrirspurn hv. þm. Margar þjóðir vilja nú fara hina íslensku sérleið, að þurfa ekki að flytja inn kjöt í heilum og hálfum skrokkum eins og rakið hefur verið.

Ríkisstjórn Íslands hefur nú skipað tvo óháða starfshópa til að gera úttekt á:

Annars vegar hugsanlegri hættu sem neytendum stafar af neyslu á vörum sem innihalda innflutt nautakjöt eða nautakjötsafurðir.

Hins vegar lögum, reglum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands sem snúa að innflutningi matvæla.

Gert er ráð fyrir að niðurstöður þessarar úttektar liggi fyrir um næstu mánaðamót og munu aðgerðir landbrn. taka mið af þeim m.a. hvað varðar hugsanlegar laga- og reglugerðarbreytingar. Satt að segja vænti ég góðs samstarfs og veit að það verður svo frá hinu háa Alþingi og ekki síst við hv. landbn. í þeirri vinnu sem ég hygg að sé fram undan.