Framhaldsskólanám í Stykkishólmi

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 16:01:13 (4624)

2001-02-14 16:01:13# 126. lþ. 70.9 fundur 406. mál: #A framhaldsskólanám í Stykkishólmi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[16:01]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Við grunnskólann í Stykkishólmi hefur verið boðið upp á kennslu á fyrsta námsári á framhaldsskólastigi undanfarin ár. Ég vil í upphafi máls míns leggja áherslu á mikilvægi þess að nemendur geti stundað nám sitt sem lengst í heimabyggð, a.m.k. til 18 ára aldurs. Almenn krafa fólks til fjölskyldulífs með börnum sínum hefur verið ítrekuð í nýjum lögum um hækkun sjálfræðisaldurs. Hækkun menntunarstigs og aukið námsframboð í heimabyggð er eitt brýnasta búsetumál hinna dreifðu byggða. Benda má á að í framhaldsskólum er meira brottfall nemenda af svæðum þar sem ekki eru starfandi framhaldsskólar. Eins stundar lægra hlutfall þeirra framhaldsnám, svo ekki sé minnst á stóraukinn kostnað fyrir þá sem þurfa að sækja nám fjarri heimabyggð. Hækkun framlaga til jöfnunar á námskostnaði er spor í áttina en jafnar þann kostnað engan veginn.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, hefur í allmörg ár verið starfræktur 1. bekkur framhaldsdeildar við grunnskólann í Stykkishólmi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Síðasta vor vildi meginþorri nemenda á fyrsta ári fá að halda áfram í Stykkishólmi og taka þar annað ár. Foreldrar þessara barna sendu um það erindi til menntmrh. að starfræktur yrði 2. bekkur framhaldsskóla í vetur en við því gat hæstv. menntrh. ekki orðið.

Nú háttar svo til að í 1. bekk framhaldsdeildar í Stykkishólmi eru um 25 nemendur og í 10. bekk grunnskólans eru einnig um 25 nemendur. Það yrði mikill styrkur fyrir Stykkishólm og nágrenni ef tekin yrði ákvörðun um að starfrækja þar bæði fyrsta og annað námsár framhaldsskóla. Með aukinni tækni í fjarnámi og fjarkennslu ætti að vera hægt að styrkja þessa kennslu og gera hana samkeppnishæfa. Gagnvart nemendum sem nú eru að taka ákvörðun fyrir næstu ár er mikilvægt að ákvörðun um þetta verði tekin sem fyrst.

Því leyfi ég mér, herra forseti, að spyrja hæstv. menntmrh.: Með hvaða rökum hafnaði menntmrh. beiðni sem kom frá heimafólki á síðasta ári um að boðið yrði upp á hefðbundið nám á öðru ári framhaldsskóla við framhaldsdeild í Stykkishólmi skólaárið 2000--2001?

Það er mikilvægt, herra forseti, að rökin fyrir því komi í ljós þannig að hægt sé að vinna að því að bæta úr því sem á kann að hafa vantað.

Í öðru lagi, herra forseti: Mun ráðherra samþykkja og stuðla að því að bæði fyrsta og annað námsár framhaldsskóla verði starfrækt við framhaldsdeild í Stykkishólmi skólaárið 2001--2002?

Ég ítreka það, herra forseti, að það er afar mikilvægt að bæði vilji og styrkur menntmrh. komi þarna að og að svör við þessu fáist sem allra fyrst svo nemendur og starfsfólk geti búið sig undir að takast á við verkefnið.