Framhaldsskólanám í Stykkishólmi

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 16:04:21 (4625)

2001-02-14 16:04:21# 126. lþ. 70.9 fundur 406. mál: #A framhaldsskólanám í Stykkishólmi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er: ,,Hvers vegna hafnaði ráðherra beiðni frá heimafólki í Stykkishólmi á sl. ári um að boðið væri upp á hefðbundið nám á öðru ári framhaldsskóla við framhaldsdeild í Stykkishólmi skólaárið 2000--2001?``

Svarið er þetta: Tildrög málsins má rekja til bréfs sem menntmrh. var sent hinn 31. maí á sl. ári fyrir hönd foreldra barna í framhaldsskólanámi í Stykkishólmi þar sem óskað var eftir því að ráðuneytið heimilaði kennslu í framhalds\-áföngum átta námsgreina á öðru ári framhaldsskólastigsins, alls 11 áföngum, veturinn 2000--2001. Ítarlega var fjallað um málið innan menntmrn. og m.a. var haldinn fundur með fulltrúum foreldra, rætt við skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og bæjarstjóra í Stykkishólmi um málið. Af hálfu ráðuneytisins var málið metið á faglegum og rekstrarlegum forsendum með hliðsjón af meginsjónarmiðum varðandi réttindi til náms, auk þess sem litið var til gæða og inntaks námsins.

Jafnrétti til náms felst m.a. í því að allir nemendur eigi kost á þeirri kennslu sem skólar leitast við að tryggja nemendum og kveðið er á um í námskrá. Á framhaldsskólastigi eru gerðar ríkari kröfur til inntaks í námi og fjölbreytni en unnt virtist að uppfylla í þágu annars árs nema í Stykkishólmi. Fyrirhugað námsframboð í Stykkishólmi var eingöngu bóknám og ekki stóð til að nýta kosti nýrrar námskrár, fjarkennslu eða annars þess sem jafnöldrum viðkomandi nemenda stendur almennt til boða í skólum á framhaldsskólastigi. Ráðuneytið taldi ekki unnt að heimila nýtt námsframboð á framhaldsskólastigi nema þessir kostir byðust nemendum.

Einnig ber að líta til þess að af 10 kennurum framhaldsdeildanna í Stykkishólmi og Ólafsvík, samkvæmt skrá Fjölbrautaskólans á Akranesi yfir starfsfólk á vorönn 2000, voru fjórir kennarar með kennsluréttindi á framhaldsskólastigi, þar af tveir í þeim greinum sem til stóð að kenna umræddum nemendum. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að faglega væri ekki hægt að rökstyðja að haldið yrði úti námi á öðru ári framhaldsdeildarinnar í Stykkishólmi án þess að réttindakennarar á framhaldsskólastigi væru fleiri.

Enn fremur komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að rekstrarforsendur annars árs framhaldsdeildar í Stykkishólmi væru veikar þar eð um var að ræða rúmlega sex nemendur að meðaltali í hópi áfanga en almennar forsendur skólakerfisins gera ráð fyrir 18--19 nemendum að meðaltali í slíkum bóklegum áföngum.

Að mati forsvarsmanna Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi hefur rekstur framhaldsskóladeildar í Stykkishólmi og Ólafsvík verið mjög íþyngjandi fyrir skólann undanfarin ár og vart á þá örðugleika bætandi nema rekstrarforsendur eininganna breytist að mati ráðuneytisins. Menntmrn. taldi í ljósi ofangreindra atriða að viðkomandi nemendum mundi ekki bjóðast það jafnrétti til náms sem ráðuneytið leitast almennt við að tryggja nemendum íslenskra framhaldsskóla og sá ráðuneytið sér ekki fært að verða við beiðninni án frekari undirbúnings og könnunar.

Þá er spurt: ,,Mun ráðherra samþykkja og stuðla að því að bæði fyrsta og annað námsár framhaldsskóla verði starfrækt við framhaldsdeild í Stykkishólmi skólaárið 2001--2002?``

Svarið er þetta: Miðað við óbreyttar faglegar og rekstrarlegar forsendur framhaldsdeildarinnar í Stykkishólmi sér menntmrn. sér ekki fært að viðurkenna rekstur annars árs framhaldsdeildarinnar í Stykkishólmi enda hafi ekkert breyst frá því niðurstaða fékkst í málinu á síðasta ári. Í þessu sambandi vill ráðuneytið árétta að það hefur unnið að tilraunaverkefni með fjarkennslu á framhaldsskólastigi í Grundarfirði. Telur ráðuneytið að þróun framhaldsnáms í Stykkishólmi eigi að taka mið af þeim nýju tækifærum sem upplýsingatæknin veitir og að þróun framhaldsnáms með fjarkennslusniði gæti komið á móts við óskir um framboð á frekara námi á framhaldsskólastigi í Stykkishólmi sem uppfyllti faglegar kröfur ráðuneytisins um námsframboð og kennsluþætti sem gerðar eru til náms á öðru ári framhaldsskóla. Þá hafa farið fram viðræður milli fulltrúa ráðuneytisins og Snæfellinga um nýjan framhaldsskóla á Snæfellsnesi.

Menntmrn. sér því mikla annmarka á því að unnt sé að tryggja nemendum viðunandi framhaldsmenntun á öðru námsári í Stykkishólmi.