Framhaldsskólanám í Stykkishólmi

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 16:10:08 (4627)

2001-02-14 16:10:08# 126. lþ. 70.9 fundur 406. mál: #A framhaldsskólanám í Stykkishólmi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[16:10]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil að öllum sé ljóst að það er menntmrh. sem ber ábyrgð á framhaldsskólastiginu þannig að vilji og hans og áhugi ræður þar náttúrlega afar miklu. Mér finnast þau rök sem hann færði hér fyrir því að ekki væri hægt að koma á 2. bekk við framhaldsdeildina í Stykkishólmi ekki haldbær. Þetta er alltaf spurning um fjármagn en það er líka dýrt fyrir byggðarlagið að senda nemendur heiman frá sér og þar spilar inn í spurningin um jafnrétti til náms eins og hæstv. ráðherra vék reyndar að.

Ég vil líka víkja að þeirri hugmynd um að stofna framhaldsskóla á Snæfellsnesi. Ég tel það afar góða hugmynd og sjálfsagt að vinna að henni en það mun taka nokkur ár og ekki koma til móts við þarfir unga fólksins sem nú er í Stykkishólmi. Ég bendi á að þarna er góður hópur, milli 20 og 30 nemendur sem vilja væntanlega vera áfram. Það yrði geysilegur styrkur, bæði fyrir þennan hóp og fyrir byggðarlagið að koma á þessu námi. Ég skora því á hæstv. menntmrh. að láta það ekki vera sitt lokasvar að hafna þessu næsta vetur heldur skoði hann málið með það að markmiði að það takist að koma á slíku námi. Að mínu viti þarf að nálgast málið þannig og það fyrr en seinna. Ég skora á hæstv. ráðherra að beita áhrifum sínum og ábyrgð í þá veru.