Framhaldsskólanám í Stykkishólmi

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 16:12:12 (4628)

2001-02-14 16:12:12# 126. lþ. 70.9 fundur 406. mál: #A framhaldsskólanám í Stykkishólmi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[16:12]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það kemur ekki á óvart að hv. þm. Jón Bjarnason sé ósammála mér um þetta. Hins vegar lagði ég fagleg sjónarmið til grundvallar í svari mínu. Það var alveg ljóst og kemur fram í svarinu, ef hv. þm. hefur hlustað á það sem ég sagði, að námið hefði dreifst um of. Það nám var ekki í boði, að okkar mati, sem fullnægði þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt námskrá (Gripið fram í.) og það var ekki vilji til þess --- herra forseti, get ég fengið að ljúka máli mínu? --- að nýta tækjakost í fjarkennslu í Stykkishólmi eins og gert hefur verið í Grundarfirði. Það voru margir annmarkar á þessu og það hafa ekki verið kynnt nein ný sjónarmið í þessu máli frá Stykkishólmi. Ég held mig því við þau faglegu rök sem ég beitti í svari mínu við þessum tveimur fsp. og læt mér í léttu rúmi liggja orð hv. þm.

Varðandi það sem hins vegar hefur gerst í framhaldsskólamálum á Snæfellsnesi þá sótti ég þar fund 11. nóv. og þar voru þau mál rædd af einurð og hreinskilni. Ég bíð eftir því að heyra frekar frá Snæfellingum um það mál og tel, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson, að það sé mun skynsamlegra að beita kröftunum að slíkri lausn frekar en að dreifa þeim eins og hv. þm. Jón Bjarnason telur skynsamlegast.