Fasteignamat ríkisins og Landskrá fasteigna

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 16:14:03 (4629)

2001-02-14 16:14:03# 126. lþ. 70.10 fundur 395. mál: #A Fasteignamat ríkisins og Landskrá fasteigna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[16:14]

Fyrirspyrjandi (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég er hér með fsp. til fjmrh. um Fasteignamat ríkisins og Landskrá fasteigna. Með ákvörðun um stofnun Landskrár fasteigna ákvað Alþingi að Landskráin skyldi vera á skrifstofu Fasteignamats ríkisins á Akureyri. Í umræðunni um málið kom fram yfirlýsing hæstv. fjmrh. um að svo skyldi vera. Nú hef ég upplýsingar frá Fasteignamati ríkisins á Akureyri um að enginn undirbúningur sé í gangi þó að áform hafi verið um að Landskráin ætti að taka til starfa við þá stofnun um áramótin.

[16:15]

Þess vegna vil ég, virðulegur forseti, spyrja hæstv. fjmrh.:

1. Hversu marga nýja starfsmenn hefur Fasteignamat ríkisins ráðið sl. 18 mánuði og hvar á landinu starfa þeir?

Ég hef upplýsingar um það að vegna vinnunnar að undirbúningi við stofnun Landskrár fasteigna hafi þegar verið ráðnir starfsmenn. Gott væri að fá svör við því hvort þær upplýsingar séu rangar eða hvort þegar sé byrjað að ráða starfsmenn og hvar þeir séu þá við störf.

2. Hefur ráðherra áminnt forstjóra Fasteignamats ríkisins fyrir að framfylgja ekki ákvörðun Alþingis og vilja ráðherra um að Landskrá fasteigna verði á skrifstofu stofnunarinnar á Akureyri?

3. Hverju sætir að undirbúningur starfrækslu Landskrárinnar fer að engu leyti fram norðan heiða?

Eins og kom fram hjá mér fyrr þá er mér ekki kunnugt um það, það hefur þá gerst á allra síðustu dögum, að nokkur vinna væri í gangi varðandi undirbúning að Landskrá fasteigna á Akueyri.

Í 4. lagi, vegna þess að fyrir liggur vilji Alþingis um málið og fyrir liggur yfirlýsing og vilji hæstv. fjmrh. um málið: Hvenær er þess að vænta að starfsemi Landskrárinnar hefjist á Akureyri?