Fasteignamat ríkisins og Landskrá fasteigna

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 16:22:31 (4632)

2001-02-14 16:22:31# 126. lþ. 70.10 fundur 395. mál: #A Fasteignamat ríkisins og Landskrá fasteigna# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta mál er tekið hér upp vegna þess að ástæða var til. Menn höfðu bundið vonir við það í ljósi þess hversu afdráttarlaus fyrirheit höfðu verið gefin í þessu máli um að þessi starfsemi tæki til starfa af fullum krafti á Akureyri núna um síðustu áramót en svo er ekki og um það leyti eða í aðdraganda áramótanna bólaði lítið á því að málin væru að komast á hreyfingu og norðan heiða vissu menn lítið hvað væri á ferðinni. En nú skilst mér, og það er vissulega vel, að það rofi til í málinu og því sé lofað að þetta fari af stað eins og til var ætlast á sínum tíma núna innan skamms. Það er vissulega vel og ber að fagna því enda hefði í þessu tilviki verið óvenjuerfitt að sætta sig við að málin lentu í einhverri útideyfu hjá mönnum þegar allar forsendur voru til staðar til að láta þó eitthvað gerast í þessum efnum að byggja upp starfsemi sem er prýðilega staðsett á landsbyggðinni og gera það af myndarskap. Þannig að það er gott ef horfir til betri tíðar í þessu efni.