Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:03:19 (4642)

2001-02-15 11:03:19# 126. lþ. 71.2 fundur 444. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér kemur til umræðu fyrsta tillagan af fjórum sem tengjast ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október árið 2000. Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hæstv. ráðherra og síðasta ræðumanns einnig, að vinnubrögðin séu að þessu leyti mun þjálli og skynsamlegri en fyrirkomulagið sem áður var. Hér erum við að fá í hendur tiltölulega nýlegar ákvarðanir nefndarinnar. Alþingi kemst þá að málinu fyrr en ella væri, ef nauðsynlegar lagabreytingar hefðu áður þurft að undirbúast. Ég held að þessi framgangsmáti sé skynsamlegur og muni koma til með, ef að líkum lætur, að festast í sessi hér, þ.e. að fyrst sé leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðunum sameiginlegu nefndarinnar í þeim tilvikum að beitt hefur verið svonefndum stjórnskipulegum fyrirvara. Alþingi staðfestir síðan fyrir sitt leyti þær ákvarðanir eða veitir heimild til að fallið sé frá fyrirvaranum og síðan yrðu nauðsynlegar lagabreytingar undirbúnar.

Ég vil í þessu sambandi minna á það sem rætt var í tengslum við þetta vinnulag og reyndar ítrekað í umræðum um utanríkismál á síðasta þingi, að efla um leið starfsemi Alþingis að þessu leyti til að vera þátttakandi í þessu ferli. M.a. var rætt um að utanrmn. fengi sérstakan starfsmann sem utanrmn. hefði út af fyrir sig til að geta fylgst betur með og verið þátttakandi í ferlinu á öllum stigum, jafnvel rætt um hvort ástæða væri til að Alþingi hefði fulltrúa eða væri með tengsl við ákvarðanatöku og undirbúning slíkra hluta í Brussel. Nú er að verða ár liðið síðan við ræddum þetta, herra forseti. Að því er ég best veit hefur lítið gerst, en ég leyfi mér að nota tækifærið og minna á að rætt hafi verið um þetta.

Ég tel fulla ástæðu til að hrinda í framkvæmd ákveðnum breytingum, t.d. til að byrja með þeirri að Alþingi hafi sérstakan starfsmann í fullu starfi út af fyrir sig sem eingöngu sinni utanrmn. með sérstakri hliðsjón af skyldum sem utanrmn. er ætlað að axla í þessum efnum. Úr því að niðurstaðan varð ekki sú að stofna sérstaka EES-nefnd, fagnefnd eða Evrópunefnd í þinginu, sem vissulega var rætt um á sínum tíma, heldur að utanrmn. hafi þetta með höndum, þá held ég að ljóst sé að bregðast þarf við því með því að efla möguleika nefndarinnar til að fylgjast reglubundið með því sem þarna er á dagskrá og vera fullgildur þátttakandi í því. Ég leyfi mér að minna á þetta hér í viðurvist hæstv. utanrrh. og ekki síður í viðurvist hæstv. forseta Alþingis sem vonandi heyrir orð mín og kemur þeim skilaboðum áleiðis. Ég veit að forsn. hlýtur að minnast þeirrar umræðu sem um þetta varð á síðasta þingi.

Að öðru leyti, herra forseti, sé ég ekki ástæðu til að hafa um þetta mörg orð. Ég hygg að hér séu á ferðinni tiltölulega eðlilegar lagfæringar á þeim viðaukum sem hér er verið að breyta, í þessu tilviki um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun eða starfsréttindum, sem tvímælalaust telst til þess jákvæða sem þessir samningar hafa í för með sér. Reynt er að samræma hvað menn leggja til grundvallar í mat á starfsnámi og starfsréttindum og tryggja gagnkvæmni í þeim efnum.

Sama gildir raunar um dagskrármál nr. 3, 4 og 5, herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þau efnislega við fyrri umr. Ég leyfi mér að nota tækifærið og lýsa því yfir að í þeim tilvikum geri ég heldur ekki stórar athugasemdir, alla vega ekki við 1. umr. Ég sé ekki ástæðu til að taka til máls í umræðum um þau mál er varða fjarskipti eða rafræn viðskipti, þ.e. dagskrármál nr. 3, né um vinnurétt eða vinnutíma sjómanna o.fl., þ.e. 4. og 5. dagskrármál.