Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:08:56 (4643)

2001-02-15 11:08:56# 126. lþ. 71.2 fundur 444. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)# þál., TIO
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:08]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Mig langar til að bregðast við þeim athugasemdum sem hér hafa komið fram hjá hv. þingmönnum. Í fyrsta lagi um þau vinnubrögð sem nú tíðkast þegar samþykktir sameiginlegu nefndarinnar koma fyrir þingið. Ég heyri að menn eru yfirleitt sáttir við þessa nýju vinnutilhögun og vil lýsa því yfir að ég tel að hún hafi verið mjög til bóta þegar hún var tekin upp skipulega á sl. ári.

Hv. síðasti ræðumaður, Steingrímur J. Sigfússon, ræddi svolítið um að nauðsynlegt væri að þingið styrkti stöðu sína til að fást við þessi mál. Allt er það rétt sem hann lét þar koma fram. Þetta hefur verið í athugun í þinginu og sem formaður utanrmn. hef ég sjálfur lagt áherslu á að úr þessu verði bætt. Eftir því sem ég best veit er málið í vinnslu. Þetta er að vísu flókið mál. Það þarf að sjá hvernig slíkt kæmi inn í vinnutilhögun þingsins, þá ekki síst ef tengslin við Brussel, milli Alþingis og þessarar uppsprettu ákvarðana sem Brussel er orðin, yrðu beinni en nú er. Það þyrfti að skipuleggja og fella það að starfsemi þingsins og er ekki alveg augljóst hvernig það verður gert, enda engin fordæmi fyrir því.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kvartaði, sem eðlilegt er, undan því að orðalag í þingskjali væri óljóst. Ég verð að gleðja hv. þm. með því, sem situr nú sem nýr fulltrúi flokks síns í utanrmn. og ég býð hana hér með velkomna til nefndarinnar, að þetta orðalag endurspeglar þann skýrleika sem almennt stafar frá birtunni í Brussel. Nú er hún er komin í klúbbinn og verður að sætta sig við þetta orðalag.