Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:11:21 (4644)

2001-02-15 11:11:21# 126. lþ. 71.2 fundur 444. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það má ljóst vera að þáltill. þessi er nokkuð tæknilegs eðlis. Það er líka alveg ljóst að margt af því sem í henni er á ekki við hér á landi, eins og vill verða í mörgum gerðum sem samþykktar eru á þessu stóra svæði. Í öðrum löndum tíðkast aðrar hefðir og siðir og auðvitað mótast þessi þáltill. og væntanleg lagasetning af því. Það fylgir hins vegar því að gangast undir samræmdar reglur á stórum markaði og öll þessi reglusetning og lagasetning hefur og mun hafa mikil áhrif á umhverfi okkar hér á landi.

Að því er varðar áhrif íslenskra fagfélaga á þetta starf þá eru atvinnurekendasamtökin aðilar að samstarfi við atvinnurekendasamtök í Evrópu og Alþýðusamband Íslands er líka aðili að samstarfi við verkalýðshreyfingar í öðrum löndum. Þessir aðilar hafa aukin áhrif á gerðir og lagasetningu og þess vegna er afar mikilvægt að þessi samtök geti komið beint að því starfi og í reynd hafa atvinnurekendasamtökin og verkalýðshreyfingin í sumum tilvikum betri aðstöðu til þess en utanríkisþjónustan. Þeim hefur tekist að vera beinir aðilar að þessu samstarfi og gera sér grein fyrir því að mikilvægt er að efla það. Þar með hafa þeir stundum aðgang að hlutum sem við höfum ekki aðgang að samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Við höfum lagt á það áherslu í utanrrn. að þessi samtök reyni að styrkja þessa samvinnu.

Að því er varðar aðkomu þingsins að þessum undirbúningi þá höfum við í utanrrn. lagt á það áherslu að bæta þar um. Við höfum lýst okkur reiðubúna til að greiða fyrir því á allan hátt gagnvart Alþingi. Þessi nýi háttur sem ég heyri að hv. þm. eru ánægðir með er liður í þeirri viðleitni. Síðan verður Alþingi að sjálfsögðu að skipuleggja störf sín að því leyti og skipa þá starfsmenn sem Alþingi telur þurfa til að fylgjast með þessum málum og vinna að málum fyrir hönd Alþingis. Við í utanríkisþjónustunni höfum lagt mikla áherslu á að bæta þessi samskipti og efla. Við höfum lýst okkur reiðubúna til að greiða fyrir öllum þeim hugmyndum sem fram koma af hálfu Alþingis, hvort sem það er að Alþingi hafi sérstakan starfsmann, sem muni þá hafa náið og gott samstarf við utanríkisþjónustuna eða hvort Alþingi kýs að hafa sérstakan starfsmann í Brussel líkt og er með ýmis ráðuneyti. Allt er þetta til umfjöllunar og það mun ekki standa á utanrrn. að vinna með Alþingi að mótun slíkra hugmynda. Ég hef margoft lýst því yfir áður að við teljum nauðsynlegt að þarna verði bætt úr.

Ég vænti þess, herra forseti, að með þessu hafi ég svarað þeim spurningum sem bornar hafa verið fram. Ég vil þakka hv. þm. fyrir hve vel þeir taka undir það að við reynum að feta okkur áfram samkvæmt þeim nýju starfsháttum sem þarna hafa verið teknir upp. Það er að sjálfsögðu alveg ljóst að margt af því sem þarna er að gerast er nokkuð sem Alþingi mun standa frammi fyrir sem nánast gerðum hlut þegar fram líða stundir. Því er afar þýðingarmikið að sjónarmið okkar komist á framfæri á fyrri stigum, þannig að menn þurfi ekki að standa frammi fyrir því að annaðhvort þurfi að samþykkja eða hafna. Öll áhrif á undirbúning geta skipt miklu máli. Það er mikilvægt að sem flestir komi að því þar sem hér er oft og tíðum um nokkuð flókin mál að ræða. Þau geta hins vegar haft veruleg áhrif á allt starfsumhverfi hér á landi.