Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:30:36 (4650)

2001-02-15 11:30:36# 126. lþ. 71.2 fundur 444. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:30]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að við þurfum að líta til allra átta, en sérstaða þessa máls er fyrst og fremst sú að hér er um að ræða reglur sem gilda á öllu þessu evrópska svæði og þar af leiðandi er mikilvægt að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendasamtökin fylgist vel með undirbúningi þessara reglna og það hefur mikla sérstöðu.

Einnig er rétt að unnið er að sameiginlegum reglum á miklu víðara sviði, sérstaklega á sviði Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og smátt og smátt er verið að þróa aðkomu frjálsra félagasamtaka að því og nauðsynlegt er að halda áfram að þróa það. Þó að fjárfestingarsamningurinn hafi ekki orðið að veruleika á verksviði OECD, þá er nú verið að vinna að svipuðum málum eins og hv. þm. gat réttilega um á verksviði Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Það er mikið hagsmunamál fyrir ríki eins og Ísland að þar takist samkomulag vegna þess að við eigum mjög erfitt með að sinna fjárfestingarsamningum við ýmis ríki heims. Við höfum miklu minni möguleika á því en stærri þjóðir og þar af leiðandi er samræming þessara mála mikið hagsmunamál fyrir smærri þjóðirnar. Ég vænti þess að eitthvert slíkt samkomulag geti tekist í framtíðinni.

Hins vegar er alveg rétt hjá hv. þm. að allir slíkir samningar hafa takmarkandi áhrif á ákvörðunarvald þjóða eftir að þeir hafa verið teknir vegna þess að samræmingin kallar á samræmdar reglur og samræmda löggjöf sem menn verða þá að standa við eftir að slíkir samningar hafa verið gerðir.