Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 12:21:51 (4663)

2001-02-15 12:21:51# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[12:21]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst með ólíkindum, fyrst talað er um ólíkindi, að hv. þm. skuli bera þetta saman við ólögleg fíkniefni. Mér finnst eiginlega reginhneyksli að hann skuli gera það. Ef við ætlum að tala um það þá skulum minnast þess að á bannárunum mátti ekki selja vín á Íslandi. Ég held að það hafi verið það versta sem gat komið fyrir Íslendinga. Þeir lærðu þá ekki að umgangast vín. Og hér blómstraði aldeilis neðanjarðarstarfsemi í að brugga brennivín og selja út um allar trissur. (TIO: Vill þingmaðurinn lögleiða fíkniefni?) Ég ætla ekki að svara þessari spurningu, hv. þm. Tómas Ingi Olrich.

Það hefur komið fram að þessi íþróttagrein er ekki hættuleg. Það er rangt hjá hv. þm. þegar hann segir að markmiðið sé að rota andstæðinginn. Þegar eftirlit er haft með þessari íþrótt og keppt í henni þá eru menn dæmdir úr leik ef þeir reyna að rota andstæðinginn. Í tölum frá Bandaríkjunum segir að upp hafi komið 98 tilvik þar sem meiðsl kröfðust læknishjálpar, en þar eru þátttakendur nærri 23 þús. og bardagarnir yfir 23 þús. Það er því ekki hægt að segja að um mikil meiðsl sé að ræða í þessari íþrótt.