Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 12:28:07 (4666)

2001-02-15 12:28:07# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[12:28]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það var nokkurt mál gert úr því að ég væri að vitna til þess sem áður var. En er það nú ekki svo að sá sem ekki þekkir söguna þekkir ekki uppruna sinn? Er ekki ágætt að vitna til þess hvers vegna bannið var sett á? Geri hver sem vill lítið úr því að ég hafi vitnað til þessara mála, þau eru töluð og skrifuð á líðandi stundu þegar málið var í gerjun og menn vissu nákvæmlega hvað var að gerast.

Þegar talað er um að það sé reginmunur á atvinnuboxi og ólympískum hnefaleikum þá vil ég spyrja: Hvað eru ungir menn, sem hafa stundað neðanjarðarstarfsemi eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir kom hér inn á, að sækja með því að fara út og keppa í Bandaríkjunum í ólympískum hnefaleikum? Veit hv. þm. að þar eru verðlaun, fjárhæðir í boði? (Gripið fram í.) Og af því að menn hafa höfuðpúða til að verja hauskúpuna en ekki á heilann þá er það eitthvað allt annað.

Gleymum því ekki, hvað svo sem hv. þm. segja um muninn á ólympískum hnefaleikum eða venjulegum hnefaleikum andspænis öllum öðrum íþróttum, að tvennt aðskilur þessar íþróttagreinar, box og ólympíska hnefaleika, frá öllum öðrum íþróttagreinum. Það er að keppni lýkur ekki fyrr en annar hvor liggur í valnum eða er óvígur, ófær um að keppa lengur. Annaðhvort hafa læknar tekið af skarið um það að hann sé óvígur eða orðinn meiddur og geti ekki slegist lengur í hringnum.

Konur góðar, hv. þm., hvað með brjóstahlífar þegar konur eru í boxi? Hvernig ætlið þið að verjast? (Gripið fram í.) Hvernig ætla konur að verjast í boxi. Ætla þær að eignast börn og gefa þeim móðurmjólk með skemmd brjóst eftir box? Getið þið svarað því? Þekkið þið það? Eru til um það vísindalegar rannsóknir eins og hér er alltaf vitnað til?