Atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 13:31:25 (4680)

2001-02-15 13:31:25# 126. lþ. 71.94 fundur 304#B atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[13:31]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég hef séð ástæðu til þess að biðja um umræðu utan dagskrár um starfsöryggi fiskverkafólks. Í janúar sl. voru á atvinnuleysiskrá 338 vegna samdráttar í fiskvinnslu. Þessi tala mun þó vera enn hærri vegna þess að ekki eru meðtaldir þeir atvinnulausu sem eru á hinni svokölluðu 60 daga reglu samkvæmt lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs frá 7. mars 1995. Víða um land eru blikur á lofti varðandi atvinnuöryggi fiskverkafólks. Rækjuvinnslan á víða í erfiðleikum, óljóst er um framhald á vinnslu á Rússafiski og sameining fyrirtækja heldur áfram. Staðir sem nefna má í þessu sambandi eru Bolungarvík, Vestmannaeyjar, Kópasker, Eskifjörður, Þorlákshöfn, Húsavík, Siglufjörður, Hrísey, Ólafsfjörður og fleiri staðir.

Fulltrúar Starfsgreinasambands Íslands hafa óskað eftir svörum ríkisstjórnarinnar við grundvallarspurningum er varða framtíð fiskvinnslunnar í landinu og starfsöryggi fólksins sem við hana vinnur. Hver er stefna stjórnvalda í byggða- og atvinnumálum? Hvernig er hægt að minnka útflutning á óunnum fiski? Er hægt að tryggja að íslensk fiskvinnsla fái ávallt næg tækifæri til að bjóða í allan þann fisk sem veiddur er innan íslensku lögsögunnar? Er hægt að gera fiskvinnsluhúsum án útgerða kleift að eignast kvóta? Hvernig er hægt að tryggja starfsöryggi fiskvinnslufólksins? Hver er stefna hins opinbera í málefnum atvinnulausra? Geta stjórnvöld beitt sér fyrir því að sett verði á laggirnar nefnd sem rannsaki afleiðingar þess þegar stór atvinnutæki eru seld milli byggðarlaga?

Ríkisstjórnin og þar með hæstv. félmrh. hafa beitt sér fyrir aðgerðum til þess að veikja stöðu fiskvinnslunnar í landinu og þá sérstaklega stöðu og réttindi verkafólksins. Rýmkað hefur verið um vegna útflutnings á óunnum fiski með þeim afleiðingum að sá útflutningur hefur aukist stórlega. Einnig verður ekki fram hjá því horft að reglugerð félmrh. frá 24. maí 1995 sem byggir á 3. gr. laga nr. 19/1979 hvetur fyrirtæki til þess að stöðva fiskvinnslu og velta launakostnaðinum yfir á Atvinnuleysistryggingasjóð. Fyrirspurnirnar til hæstv. félmrh., atvinnumálaráðherra, eru þessar:

1. Hvað hyggst ríkisstjórnin gera vegna uppsagna fiskverkafólks og versnandi atvinnuástands af þeim og fleiri ástæðum í fjölmörgum byggðarlögum á landsbyggðinni?

2. Hyggst ríkisstjórnin sjá til þess að þessar aðstæður og úrbætur í þeim efnum verði sérstaklega hafðar í huga við þá endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar sem stendur yfir og hyggst félmrh. beita sér í þeim efnum?

3. Hefur komið til tals að auka byggðakvóta eða byggðatengja með einhverjum hætti einhver veiðiréttindi til að skapa minni sjávarbyggðum aukið öryggi?

4. Hefur komið til tals í ríkisstjórninni að skilgreina tiltekin svæði eða landshluta sem sérstök byggðaþróunarsvæði svo heimilt verði að beita styrkjum til þess að efla nýsköpun í atvinnulífinu þar sem ástandið er slæmt?

5. Hefur með sambærilegum hætti komið til greina að taka upp styrki til þess að auðvelda kerfis- og atvinnuháttabreytingar til að forða atvinnuleysi í framtíðinni?

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að hæstv. atvinnumálaráðherra hafi á takteinum svör og stefnu ríkisstjórnarinnar. Við getum ekki unað við það að landsbyggðin lúti algerlega lögmálum peningamagnsins og það sé bara látið ráðast hvernig hlutir þróast þar. Þjóðin á heimtingu á skýrum svörum. Ef stefnan er engin, ef peningamagnið á að ráða, þá vitum við hvar við lendum en ef hæstv. ríkisstjórn hefur stefnu í þessum málum þá er gott fyrir þjóðina og þingið að fá að vita hvaða meðulum á að beita.