Atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 13:41:05 (4682)

2001-02-15 13:41:05# 126. lþ. 71.94 fundur 304#B atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), KVM
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[13:41]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Að fiskverkafólk skuli þurfa að lifa við þær aðstæður að hægt sé að senda það heim á lægstu launum 60 daga á ári vegna hráefnisskorts er óásættanlegt. 60 dagar eru stór hluti eðlilegs vinnudagafjölda á ári hverju. Við vitum að svona margir dagar án bónuss og yfirvinnu halda fólki á bágum kjörum og þetta er alvarleg staða. En enn þá alvarlegri er þó sú staða er blasir við á þeim stöðum þar sem fisk- og rækjuvinnslum hefur verið lokað. Á Bolungarvík, svo að dæmi sé tekið, bíða menn í ofvæni eftir því að hafist verði handa við að opna rækjuverksmiðjuna þar á ný. Þar er nú hátt hlutfall atvinnuleysis og hefur það mjög alvarleg áhrif á allan bæjarbraginn þar og keðjuverkunaráhrifa þessarar stöðu er tekið að gæta. Hér verður að bregðast skjótt við. Þekking og færni þess fólks sem skapað hefur auðæfi má ekki glatast.

Byggðastofnun sem er einn stærsti eigandi þessarar verksmiðju verður að leggja allt kapp á að sem hæfustu, vönustu og bestu menn geti komið að þessum rekstri og gert það þannig að rekstrarumhverfi verksmiðjunnar verði öruggt. Dapurleiki atvinnuleysisins er alvarlegur og á þetta bæði við um einstaklinga sem atvinnulausir eru og einnig þau byggðarlög sem búa við atvinnuleysi. Það er eyðibyggðastefna og ekkert annað þegar heilu sjávarplássin upp á þúsundir íbúa, svo sem í Vestmannaeyjum, Bolungarvík og víðar, eru farin að drúpa höfði í þjáningu vegna fiskveiðistjórnarstefnu íslenskra stjórnvalda. Það verður að vinna að því að fiskvinnslur hér á landi hafi greiðari og betri aðgang að hráefni til vinnslu svo örugg og jöfn vinna sé í boði.