Atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 13:45:40 (4684)

2001-02-15 13:45:40# 126. lþ. 71.94 fundur 304#B atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[13:45]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Með sameiningu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja hefur atvinnufyrirtækjum fólks við fiskvinnslu og fiskveiðar fækkað. Skipulag núverandi tilfærslukerfis á atvinnuréttindum fólksins er þannig í kvótabraskskerfinu að enginn veit hvar né hvenær kvótabraskið veldur atvinnumissi.

Hæstv. félmrh. sagði að vandinn væri að sumu leyti heimatilbúinn og tók m.a. Bolungarvík sem dæmi. Mig langar til að spyrja hæstv. félmrh.: Hvernig eiga íbúar í sjávarbyggðum þar sem yfir 80% af aflanum sem á land kemur er af smábátum að byggja upp ný fyrirtæki í botnfisksvinnslu þegar þeir vita ekki hvort hráefnið kemur að landi á næsta ári? Hvaða framtíð ætlar núverandi ríkisstjórn að byggja fólki í sjávarbyggðunum?

Við ræddum í fyrradag m.a. um fiskveiðistjórnarkerfið sem blandaðist inn í umræðuna. Það er alveg ljóst að núverandi útfærsla á sjávarútvegsstefnunni veldur miklu óöryggi hjá fólki á landsbyggðinni, bæði fiskvinnslufólki og sjómönnum.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vék hér áðan að því að krafa sjómanna væri um allan fisk á markað. Þetta er rangt. Krafa sjómanna hefur verið um það að allur fiskur tæki verðmyndun á fiskmarkaði. Hún hefur ekki verið um það að allur fiskurinn færi inn á markað eða yfir markað.