Atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 13:56:46 (4689)

2001-02-15 13:56:46# 126. lþ. 71.94 fundur 304#B atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa utandagskrárumræðu því að hér er um grafalvarlegt mál að ræða. Það er ekki eingöngu um að ræða þann fjölda sem er atvinnulaus í dag, yfir 300 manns, heldur hitt að þetta getur að hluta til verið viðvarandi atvinnuleysi innbyggt í núverandi fiskveiðistjórn.

Eins og komið hefur fram eru margvíslegar ástæður fyrir atvinnuleysi þessa fólks, þ.e. vegna þess að kvóti hefur verið seldur í burtu, kvóti hefur verið leigður í burtu og eins vegna ýmissa annarra óhappa sem komið hafa upp á. En atvinnuástandið er slæmt þrátt fyrir að það megi senda fólk heim í 60 daga á ári ef enginn afli er til að vinna.

Kvótinn er horfinn úr mörgum byggðarlögum og ekki er fyrirsjáanlegt að hann komi þangað á næstunni. Það þarf a.m.k. miklar skipulagsbreytingar til. Þess vegna tala ég um að þetta geti verið innbyggður vandi en ekki tímabundið ástand.

Nú höfum við fengið þær fréttir að það sé hugsanlegt að Rússafiskur verði ekki lengur unninn hér á landi né annars staðar. Rússar vilja fara að vinna hann heima og efla verðmætasköpunina heima fyrir og þar mun enn auka á erfiðleika okkar. Mikið af fiski er selt út þó svo dregið hafi úr þeim útflutningi. Verðmætaaukningin á að vera hjá okkur. Hún á að vera hér í eins miklum mæli og hægt er. Við eigum að auka fullvinnslu á okkar fiski og það á að vera okkar markmið. Það á ekki að vera á fáum stöðum, það á að vera út um allt land. Við verðum að tryggja byggð við sjávarsíðuna og það verður ekki gert með núverandi sjávarútvegsstefnu. Við verðum að koma á byggðakvóta og við verðum að efla smábátaútgerð í landinu.