Atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 13:59:01 (4690)

2001-02-15 13:59:01# 126. lþ. 71.94 fundur 304#B atvinnuöryggi fiskverkafólks á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[13:59]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Vissulega eiga sjávarútvegsbyggðir á Íslandi í verulegum vanda margar hverjar en ég tel að orð flutningsmaðnns og málshefjanda í dag hafi verið mun þyngri en efni standa til þegar litið er til þess að hann beinir þeim til félmrh. Vandinn er ekki af þeim toga alfarið að hægt sé að herma hann upp á félmrh. eða ríkisstjórnina.

Vissulega er atvinnuleysi eitt það skelfilegasta sem fyrir nokkurn mann og nokkra byggð getur komið. Við þekkjum öll afleiðingarnar. Það er tekjumissir, það er vonleysi, það dregur úr kjarki og sjálfstrausti einstaklinganna. Og atvinnuleysi er alvarlegt jafnvel þó fáir eigi við það að glíma í hverju kjördæmi eða hverju byggðarlagi.

Á sumum stöðum vinna jafnvel tveir til fjórir úr sömu fjölskyldu við fiskvinnslu og eru atvinnulausir. Þetta er svo sannarlega alvarlegt mál og ég tek undir orð þeirra sem sagt hafa hér í dag að kjarasamninga og atvinnuöryggi þurfi að endurskoða hjá fiskverkafólki. En að sjálfsögðu þýðir ekki að horfa aðeins til félmrh. eða ríkisstjórnarinnar. Við verðum að muna að fyrirtækin á hverjum stað vega mjög þungt, ráða miklu um það hvort afla er skipað þar á land eða annars staðar.

Við skulum líka minnast þess að sveitarfélögin á hverjum stað hljóta að koma fyrst til leiks í þessum vanda.

Þegar horft er á þær tölur sem við höfum um atvinnuleysi á landinu þá tek ég undir með hæstv. félmrh. að hér hefur verið tekið of djúpt í árinni af málshefjanda. Að sjálfsögðu á að bregðast við þeim vanda á hverjum stað og ég treysti því að það verði gert með þeim aðgerðum sem hæstv. ráðherra hefur boðað.