Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 14:37:54 (4706)

2001-02-15 14:37:54# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[14:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég fór yfir þetta með forræðishyggjuna sem í því væri fólgin að Alþingi setti lög og reglur þegar það teldi svo við þurfa í þágu almannaheilla, heilbrigðis og hollustu. Það má líka spyrja hv. þm.: Til hvers var hann að bjóða sig fram til Alþingis ef hann er þeirrar skoðunar yfirleitt að Alþingi eigi ekki að ráða hlutum af þessu tagi eða öðru? Það er auðvitað alltaf hægt að koma hér upp þegar eitthvað af þessu tagi er til umfjöllunar og ákvörðunar á Alþingi og bera fram hin hefðbundnu rök, ,,laissez faire``-rök að Alþingi eigi ekki að koma nálægt neinu og ef menn hafi afstöðu til hlutanna þá séu menn að ástunda glórulausa forræðishyggju. Ég tel þetta ekki gildan málflutning. Við skulum ræða þetta efnislega með rökum með eða á móti.

Ég viðurkenni að uppi eru ýmis sjónarmið í sambandi við t.d. heilbrigðisþátt málsins en einnig eru færð fram mjög sterk rök sem lúta að því að þessi meiðsli eru mjög sérstaks eðlis. Þau eru alvarleg og þau eru eitthvað sem menn geta komist hjá með því að stunda ekki þessa íþrótt og þetta er í öðru samhengi en á við um venjuleg íþróttaslys í öðrum greinum.