Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 14:39:15 (4707)

2001-02-15 14:39:15# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[14:39]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir þá gagnrýni sem komið hefur fram að þetta mál skuli lagt fram öðru sinni óbreytt eftir að Alþingi lýsti yfir þeim vilja sínum fyrir örfáum mánuðum að við svo búið yrði látið sitja og þetta mál var ekki samþykkt. Bannið yrði áfram í gildi. Ég tek því undir þá gagnrýni sem hér kemur fram frá reyndum hv. þingmönnum að málið skuli yfir höfuð hafa verið tekið aftur til umfjöllunar eftir svo skamman tíma frá því að það var fellt.

Mér þykir satt að segja ekkert sérstaklega skemmtilegt að taka þátt í umræðu um þetta mál hér öðru sinni eftir þau átök sem urðu um það í vor, fyrir fáum mánuðum. Mér þykir ekkert hafa gerst í millitíðinni sem segir mér að hv. flutningsmenn frv. komi til leiks með ný rök í pokahorninu. Ég hef verið að hlýða á þær ræður sem búið er að flytja og eins og fram hefur komið í þessari umræðu er þetta þriðja lotan í málinu núna og ekkert nýtt hefur komið fram í ræðum hv. flutningsmanna sem hægt er að bregðast við á annan hátt en mótmælendur eða andmælendur frv. gerðu fyrir fáum mánuðum. Mér þykir þetta jaðra við að hjakkað sé þvílíkt í sama farinu að dýrmætum tíma Alþingis væri betur varið í önnur mál meira áríðandi.

Og að hv. 1. flm. skuli stöðugt koma hér upp og ræða um að þetta sé framfaramál, þetta sé eitt af framfaramálunum sem Alþingi eigi að láta til sín taka, einhvern tíma heyrði ég hv. 1. flm. geta þess að það væri til framdráttar fyrir Íslendinga sem þjóð að samþykkja þetta mál og það væri réttlætismál fyrir Íslendinga að geta valið hvaða íþróttir menn stunduðu og að argasta forsjárhyggja væri fólgin í því að vilja viðhalda þessu banni. Röksemdum af þessu tagi mótmæli ég.

Ég vil spyrja hv. flm. frv.: Ef það er forsjárhyggja að banna áhugamannahnefaleika, eins og sú sem hér stendur styður, er það þá ekki sams konar forsjárhyggja að banna atvinnumannabox? Því að eins og komið hefur fram í ræðum flutningsmanna frv. eru að því er mér virðist allir hv. flutningsmenn samþykkir því að banni á atvinnumannahnefaleikum sé viðhaldið. Ég spyr: Hver er munurinn með tilliti til forsjárhyggju að banna áhugamannabox eða banna atvinnumannabox? Ef ég sem hér stend er sökuð um forsjárhyggju þá get ég með sömu rökum fullyrt að hv. flutningsmenn séu haldnir forsjárhyggju.

Eins og ég sagði, herra forseti, var fjallað mjög ítarlega um þetta mál á síðasta þingi og frv. var fellt með 27 atkvæðum gegn 26. Farið var ítarlega yfir málið bæði í hv. menntmn. og hv. heilbr.- og trmn. Af því að hér hefur verið fjallað um ofbeldi og komið hefur verið inn á það að hér sé um íþrótt að ræða sem sé árásaríþrótt og efni þar af leiðandi til ofbeldis, þá langar mig til að fara örfáum orðum um nál. hv. heilbr.- og trn. sem lagt var fram á vordögum en fram kemur í mjög svo faglegri umfjöllun þeirrar nefndar að tölur sem lagðar eru fram varðandi meiðsl og slysatíðni í íþróttinni eru mjög svo óábyggilegar. Þó að hv. flutningsmenn séu núna að vísa til bandarískrar könnunar þar sem segir að áhugamannahnefaleikar séu númer 71 í meiðslatíðni þá fullyrði ég út frá þeim rökum sem hv. heilbr.- og trn. bar fram á vordögum að tölur af því tagi séu misvísandi, enda ekki getið til um fjölda iðkenda. Það skiptir verulegu máli þegar fjallað er um tölur um meiðsl í íþróttagreinum að þær séu í hlutfalli við fjölda iðkenda. Ef hv. 1. flm. veit um þann fjölda iðkenda sem er að baki þeim tölum sem hann hefur tjáð hv. þingheimi, þá þætti mér fengur að því að fá þær.

Þetta er nákvæmlega sama gagnrýni og hv. flutningsmenn fengu á málið í fyrra. Enn hafa þeir ekki komið með fullnægjandi tölur sem gera okkur kleift að taka afstöðu til málsins á einhverjum öðrum grunni en við gerðum þá.

Í nál. hv. heilbr.- og trn. frá því í fyrra segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

[14:45]

,,Slysatíðni í hnefaleikum er há miðað við aðrar íþróttir, sem kemur ekki á óvart þar sem markmiðið er að koma höggi á andstæðinginn, með öðrum orðum að fara inn fyrir varnir hans og þar með meiða hann. Þar greinir á milli hnefaleika og þorra annarra íþróttagreina því að hnefaleikar, bæði í atvinnuskyni og sem áhugamannaíþrótt, eru árásaríþrótt en ekki sjálfsvarnaríþrótt eins og t.d. karate og júdó. Slysatíðni er há í nokkrum öðrum íþróttagreinum en þar gegnir öðru máli því að ekki er um ásetning að ræða heldur slys. Í hnefaleikum er markvisst reynt að koma höggi á andstæðinginn og fær keppandi stig fyrir högg á höfuð jafnt sem aðra líkamshluta. Einnig eru veitt stig fyrir rothögg.``

Þessar upplýsingar koma fram í nefndaráliti hv. heilbr.- og trn. frá því í fyrra og stangast á við það sem hv. flutningsmenn frv. segja hér nú.

En varðandi það sem hér hefur verið rætt og er að koma fram varðandi karate og aðrar austurlenskar sjálfsvarnar\-íþróttir þá verður að gá að því að þar er um að ræða íþróttir sem byggja á aldagamalli hefð, eiga sér árþúsundasögu og lúta allt öðrum lögmálum en vestrænir hnefaleikar og síðast en ekki síst lúta mjög sterkum siða- og agagreglum. Það er þannig með karate, herra forseti, að enginn fær að stíga inn í hring í karate eða júdó sem ekki kann til hlítar þær siðareglur og agareglur sem gilda um íþróttina og það er ekki markmið í þeim íþróttum að koma höggi á andstæðing.

Ég tek hins vegar undir þau orð sem hér hafa fallið varðandi sparkbox og tae kwon do. Ég sagði í ræðu minni um sama mál á liðnu vori, herra forseti, að ef samræmis ætti að gæta þá væri ég alveg til í að taka þann slag að banna tae kwon do og kickbox því þær íþróttir hafa sama markmið og áhugamannahnefaleikar, þ.e. að koma höggi á andstæðing. Ef á að gæta samræmis þá er ég til í að taka þann slag með hv. flutningsmönnum ef því er að skipta. En það er ekki rétt að líkja áhugamannahnefaleikum eða hnefaleikum yfir höfuð við austurlenskar sjálfsvarnaríþróttir þar sem siðareglur og agareglur eru grundvöllur íþróttanna og íþróttirnar byggja á sjálfsvörn en ekki árás.

Herra forseti. Í umræðunni voru menn hvattir til að koma til nútímans og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson fékk hvatningu frá einum af hv. flm., Drífu Hjartardóttur, fyrr í dag um að líta til nútímans. Ég er víst að fara með rangt mál. Það var hv. þm. Ásta Möller sem hvatti hv. þm. Guðmund Hallvarðsson að koma til nútímans en í ræðu eins flutningsmanna, hv. þm. Drífu Hjartardóttur, sem flutt var fyrr í dag komu fram þær staðreyndir að hnefaleikar væru gömul og göfug íþrótt og rætt var um 3.500 ára gamlar myndir af hnefaleikaköppum einhvers staðar suður á Krít. Það var kallað fram í hér í salnum, herra forseti, að um það leyti hafi líka tíðkast mannát þannig að það er ekki allt göfugt sem í fortíðinni var og þó að menn hafi barið hverjir á öðrum í gegnum árin þá er ekki þar með sagt að það sé göfugt eða verði göfugra með árunum. Það er ekki heldur þar með sagt að þó að fólk vilji banna árásaríþróttir af því tagi sem hér er verið að ræða um þá sé það ekki í takt við nútímann. Kunningi minn sem ég hitti á götu um daginn og var að hlæja að því að nú væri þetta mál komið fram enn eina ferðina og sagði sögu af manni í Ghana en í Ghana eru áhugamannahnefaleikar og hnefaleikar afskaplega hátt skrifaðir. Margir stunda hnefaleika þar og afskaplega margir hljóta varanleg meiðsl af hnefaleikaiðkun í Ghana. En þessi kunningi minn hitti mann frá Ghana sem hafði lagt því lið að hnefaleikar yrðu bannaðir þar í landi. Viðkomandi hafði frétt af því að hér væru hnefaleikar bannaðir og hann fór heim með bros á vör og sagðist mundu færa þær fréttir heim til félaga sinna í Ghana sem væru að berjast gegn hnefaleikum að á Íslandi væri þjóð sem væri til fyrirmyndar því að hún hefði bannað hnefaleika árið 1956. Þetta er saga úr nútímanum, ekki fortíðinni.

Hv. þm. Drífa Hjartardóttir hélt því líka fram að hér væri ekki um ruddalega íþrótt að ræða, að hnefaleikar væru ekki ruddalegir. En ég spyr hv. flutningsmenn: Er ekki ruddalegt að ráðast að andstæðingi sínum í hring til þess eins að koma á hann höggi og það helst á höfuðið? Breska læknafélagið er núna að kanna möguleika á því að fá flutt frv. eða settar hertar reglur í hnefaleikum þar í landi sem banni högg ofan við viðbein af augljósum ástæðum vegna þess að allar læknaskýrslur sem breska læknafélagið hefur veifað í þessum málum segja það sama: Áverkar á höfuð og heila í áhugamannaboxi eru nákvæmlega sömu áverkar og í atvinnumannaboxi. Enn hafa hv. flm. þessa frv. ekki hrakið þá staðreynd. Heilinn verður fyrir sama skaða af þungu höggi þó að höfuðhlífar séu á ytra byrði höfuðsins eins og hann verður fyrir af þungu höggi í atvinnumannaboxi. Þannig er það, herra forseti.

Markmiðið með þessum barsmíðum er síðan að safna stigum, segja hv. flm. En ég segi, herra forseti: Það er hægt að safna stigum í öðrum íþróttagreinum. Það er hægt að fá stig í billjard þótt menn séu ekki að berja náunga sinn. Hvernig ætla hv. flm. þessa frv. að tryggja það, þó svo að settar verði reglur um áhugamannahnefaleika, að þeim verði framfylgt. Ég fullyrði þess vegna, herra forseti, að hér er verið að bjóða heim hættunni og ryðja brautina fyrir atvinnumannahnefaleika, ekkert annað. Þegar talað er um höfuðhöggin þá er rétt að geta þess að hér er um að ræða högg þar sem hnefi fer í höfuð andstæðingsins á allt að 160 km hraða á klukkustund. Það hefur verið mælt að skallaboltarnir, sem hafa komið til umræðu líka, jafngilda því að viðkomandi sem tekur skallabolta fái í höfuðið 500--250 kg farg. Ég viðurkenni það, herra forseti, og það vita allir, að skallaboltarnir eru nákvæmlega jafnhættulegir og valda nákvæmlega sömu meiðslum og hnefahögg í hnefaleikum. En miðað við fjölda iðkenda og tíðni högga, herra forseti, er þetta tvennt ekki sambærilegt. Ég tel því, herra forseti, öll rök hníga að því að þetta mál verði aftur fellt. Mér virðast rökin vera læknisfræðileg. Mér finnst þau vera siðferðileg og mér finnst þau vera uppeldisleg og hvet hv. þm. til þess að lesa enn og aftur nefndarálit hv. heilbr.- og trn. frá því í fyrra. Þar var farið ítarlega yfir málin. Þar var fjöldi sérfræðinga spurður álits og þó svo að tveir aðilar sem heimsóttu hv. menntmn. hafi viljað meina að það gæti verið uppeldislega afskaplega gott að leyfa áhugamannahnefaleika, þá var ég stödd á þeim fundi hv. menntmn. þar sem þessir sérfræðingar lögðu orð í belg. Ég fullyrti í ræðustóli í fyrra og fullyrði enn að í nefndaráliti frá meiri hluta menntmn. frá því í fyrra hafi ummæli þessara sérfræðinga verið mistúlkuð. Í nefndaráliti frá meiri hluta menntmn. frá því í fyrra segir, með leyfi forseta:

,,Þá kom fram í máli gesta að uppeldisleg rök eru einnig fyrir lögleiðingu íþróttarinnar þar sem sumir hópar þjóðfélagsins gætu haft gott af iðkun íþróttarinnar og þeim aga sem þar gildir.``

En ég fullyrði, herra forseti, að þegar þessi ummæli voru viðhöfð þá var verið að tala um karate og siðareglurnar sem gilda í austurlenskum sjálfsvarnaríþróttum og uppeldisgildi þeirra.

Ég hyggst ljúka máli mínu, herra forseti, með tilvitnun í pistil frá Flosa Ólafssyni nokkrum sem hann skrifaði í vefritið strik.is á síðasta ári. Í mínum huga lýsir Flosi ágætlega í þessum pistli hvað hér er um ruddalega íþróttagrein að ræða. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Ef tveir menn koma sér saman um að ekkert sé unaðslegra en að berja hvor annan í hausinn þar til þeir eru orðnir eins og vankaðir höfuðsóttargemlingar, heilaskaddaðir og alveg út úr heiminum, þá gera þeir það hvort sem boxið er bannað eða ekki.``